A A A
  • 1963 - Jóhannes Frank Jóhannesson
  • 1979 - Marika Jopp
08.03.2017 - 22:32 | Alþingi,Björn Ingi Bjarnason,Vestfirska forlagið

8. mars 1843 - Tilskipun konungs um endurreisn Alþingis

Jón Sigurðsson frá Hrafnseyri við Arnarfjörð.
Jón Sigurðsson frá Hrafnseyri við Arnarfjörð.

Alþingi Íslendinga var endurreist með tilskipun konungs Danmerkur og Íslands 8. mars 1843. 
Starfsemi þess hafði legið niðri í rúma fjóra áratugi. 
Þingið kom aftur saman 1. júlí 1845.

Alþingi Íslendinga er elsta og æðsta stofnun þjóðarinnar. Það var stofnað á Þingvöllum árið 930 og markar það upphaf þjóðríkis á Íslandi. Alþingi var allsherjar­ þing landsmanna. Þar voru samin lög og kveðnir upp dómar. Samkomudagur Alþingis var um eða upp úr miðjum júní og þinghaldið stóð um tveggja vikna skeið. Þingið sóttu goðar sem voru ráðandi í samfélaginu. Öllum frjálsum mönnum og ósekum var heimilt að koma á þingið. Þeir sem sóttu Alþingi dvöldust í búðum á Þingvöllum um þingtímann. 

Á þingstaðnum áttu allir að njóta griða og frelsis til að hlýða á það sem fram fór. Oft var fjölmennt á Alþingi til forna enda var þar miðstöð valda og samskipta. Lögrétta var miðstöð þinghaldsins. Hún skar úr lagaþrætum, setti ný lög og veitti undanþágur frá lögum. Í lögréttu sátu goðar og síðar einnig biskupar ásamt aðstoðarmönnum sem ekki höfðu atkvæðisrétt og réð meiri hluti úrslitum mála. Eftir skiptingu landsins í fjórðunga um 965 voru settir fjórir fjórðungsdómar á Alþingi, einn fyrir hvern fjórðung, skipaðir 36 dómendum hver og þurfti 31 samhljóða atkvæði til að kveða upp gildan dóm. Síðar var stofnaður fimmtardómur á Alþingi í upphafi 11. aldar sem var nokkurs konar áfrýjunardómstóll. Hann var skipaður 48 dómendum, tilnefndum af goðum í Lögréttu, og réð einfaldur meiri hluti dómi. Lögsögumaður var æðsti maður þingsins en hlutverk hans var meðal annars að segja upp gildandi lög Íslendinga, áður en þau voru skráð. Hann sagði upp lögin um þinghaldið, þingsköpin og stjórnaði fundum Lögréttu og skar úr þrætumálum ef ekki náðist samkomulag með öðrum hætti. Talið er að lögsögumaðurinn hafi flutt mál sitt á Lögbergi og þar hafi verið kveðnir upp dómar, fluttar ræður í mikilvægum málum og þingsetning og þinglausnir farið fram. 

Ýmislegt er þó óljóst um þinghaldið og hlutverk lögsögumanns enda voru miklir umbrotatímar í íslensku samfélagi á fyrstu öldum byggðar, og átök um trú og völd settu svip sinn á þjóðfélagið sem og störf Alþingis. Íslendingabók, sem rituð var á tímabilinu 1122–1133, er ein helsta heimildin um stofnun Alþingis á Þingvöllum.

8. mars 1843 - Tilskipun konungs um endurreisn Alþingis

Tilskipun konungs um endurreisn Alþingis var gefin út 8. mars 1843 og fóru fyrstu kosningar fram 1844, en þingið kom fyrst saman 1. júlí 1845. Alþingi var skipað 26 alþingismönnum, 20 þjóðkjörnum þingmönnum, einum kjörnum úr hverju kjördæmi (sýslu), en konungur skipaði auk þess sex þingmenn. Um kosningarrétt og kjörgengi giltu ákvæði um lágmarkseign að danskri fyrirmynd og munu tæp 5% landsmanna hafa notið kosningarréttar í upphafi.

Alþingi kom saman til fundar í Lærða skólanum í Reykjavík (nú Menntaskólanum í Reykjavík) 1. júlí annað hvert ár og var að störfum í um það bil fjórar vikur. Þingið var einungis konungi til ráðgjafar og hafði ekki formlegt löggjafarvald. Það ræddi stjórnarfrumvörp og voru tvær umræður, undirbúningsumræða og ályktunarumræða, og einstakir þingmenn báru fram mál til umræðu. Tillögur sem samþykktar voru á þinginu nefndust bænarskrár.

 

Á tímabilinu 1845–1874 kom Alþingi 14 sinnum saman og það var mikilvægur vettvangur þjóðmálaumræðu. Frá upphafi var Jón Sigurðsson, alþingismaður Ísfirðinga, forustumaður þingsins og lengstum forseti þess.


Úr sögu Alþingis Íslendinga.

 

 

« Nóvember »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30