A A A
  • 1997 - Ragnhildur Anna Ólafsdóttir
  • 2000 - Andrea Sif Bragadótir
01.02.2016 - 20:34 | Vestfirska forlagið,BIB

1. febrúrar 1904 – Hannes Hafstein - fyrsti ráðherra Íslands

Hannes Hafstein fyrsti ráðherra Íslands.
Hannes Hafstein fyrsti ráðherra Íslands.

Ráðherraembættinu, sem varð til með heimastjórninni, fylgdu meiri völd og ábyrgð en nokkurri stöðu á Íslandi öldum saman. Í sérmálum Íslands tók ráðherrann við því valdi sem danska stjórnin hafði áður. Hann var að vísu háðari vilja Alþingis en danski Íslandsráðherrann hafði verið. Hins vegar var staða hans til þess fallin að gefa honum forystuhlutverk á þingi. Svo var það nýtt ábyrgðarhlutverk, og ekki vandaminnsti þáttur ráðherrastarfsins, að halda á málstað Íslands gagnvart Danmörku.

Heimastjórnarflokkurinn hafði unnið þingmeirihluta í kosningum 1903 og gerði því tilkall til ráðherraembættisins, en lét konungi eftir að ákveða hvaða flokksmanni það yrði falið. Það var því í raun ráðherra Íslandsmála í dönsku stjórninni sem þurfti að ganga úr skugga um hvaða heimastjórnarmaður væri best til þess fallinn að Hannes Hafstein Þingsetninghalda trúnaði starfhæfs meirihluta á þingi og fara með hin vandasömu samskipti við konung og ríkisstjórn Dana. Fyrir valinu varð Hannes Hafstein, sýslumaður og bæjarfógeti á Ísafirði. Hann var af yngri kynslóð stjórnmálamanna, hafði aðeins setið á tveimur þingum, en naut þó mikils trausts í flokki sínum. Honum hafði verið falið, þegar stjórnarskipti urðu í Danmörku 1901, að fara og túlka sjónarmið meirihluta Alþingis fyrir hinum nýju valdhöfum. Sendiförin gaf honum tækifæri til að sanna, bæði fyrir Dönum og Íslendingum, hæfileika sína til að gegna hinum diplómatíska þætti ráðherrastarfsins.

 

Hannes Hafstein var fæddur 4. desember 1861, sonur amtmannshjónanna á Möðruvöllum, en var barn að aldri þegar faðir hans missti embættið og ólst því ekki upp sem höfðingjasonur, en ættingjar studdu hann til mennta. Hannes vakti athygli í menntaskóla fyrir námsgáfur og forystuhæfileika, og var þá þegar byrjaður að yrkja.

Á námsárum sínum við Kaupmannahafnarháskóla varð hann þjóðfrægur sem ungskáld: skáld lífsgleði, ásta og karlmannlegrar bjartsýni. Hannes kom heim sem lögfræðingur, stofnaði heimili og gerðist embættismaður, fyrst í Reykjavík en síðan bæjarfógeti og sýslumaður á Ísafirði.

Sem sýslumaður Ísfirðinga varð hann frægur af mannskæðri svaðilför á hendur erlendum landhelgisbrjót á Dýrafirði. Hannes Hafstein var fyrst kjörinn á þing 1901 og var síðan stjórnmálamaður í fremstu röð meðan honum entist líf og heilsa.

Hannes var fyrsti ráðherra Íslands 1904-1909 og öðru sinni 1912-1914.

Eins og allir stjórnmálamenn var hann umdeildur, en eignaðist marga einlæga aðdáendur. Hans er einnig minnst fyrir skáldskap sinn og fyrir fágæta glæsimennsku í sjón og framkomu.

« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30