A A A
  • 1950 - Margrét Guðjónsdóttir
  • 1955 - Angantýr Valur Jónasson
18.02.2015 - 07:08 | Vestfirska forlagið

-Vestfirskir stjórnmálamenn í blíðu og stríðu-

Sverrir Hermannsson. Teikning: Ómar Smári Kristinsson.
Sverrir Hermannsson. Teikning: Ómar Smári Kristinsson.

Sverris þáttur Hermannssonar hins vestfirska

Maður er nefndur Sverrir og er Hermannsson, Djúpmaður frá Svalbarði í Ögurvík. Hann er maður sem ekki hefur vílað hlutina fyrir sér í gegnum lífið. Ókvalráður er það víst kallað. Ótrauður og óhlífinn. Er og svo með þá marga, Vestfirðingana. Þeir eru engir aukvisar upp til hópa, óhvikulir og áreiðanlegir. Eiga það þó til að rasa um ráð fram ef svo ber undir. Sverrir Hermannsson hefur einstaka sinnum lent í því á sínum ferli. En það gerir manninn bara athyglisverðari. Og vestfirska þrjóskan lætur ekki að sér hæða.
Auðunn hinn vestfirski er gott dæmi um það. Hann hélt sínu striki með bjarndýr sitt er hann hugðist færa Sveini Danakóngi. Og það tókst honum sem frægt er.

 

Þegar sundurlyndið ríkir


Það var á áttunda áratugnum þegar Sverrir Hermannsson var kommissar í Framkvæmdastofnun, að mikil vandræði voru sem oftar í atvinnulífinu á Bíldudal.

Menn voru ekki á eitt sáttir hvernig bregðast skyldi við vandanum og var hver höndin upp á móti annarri í plássinu. Voru nú gerðir út menn á fund kommissara í Framkvæmdastofnun til að herja út fjármuni til að reyna að hressa við atvinnulífið á staðnum. Ekki bar það árangur sem skyldi og hófust nú bréfaskriftir. Sverrir hafði með Vestfirðina að gera og var því vandi Bílddælinga á hans könnu. Í einu af bréfum þeirra kom fram, að þeir þyrftu svo og svo margar krónur í fyrirgreiðslu til að hressa upp á frystihúsið. Ekki stóð á svari hjá Sverri. Hann ráðlagði Bílddælingum að byrja á því að senda sundurlyndisfjandann út á sextugt djúp og þá mundi allt snúast þeim til betri vegar. Fyrr fengju þeir ekki krónu hjá sér!

Eftir þessa ráðleggingu kommissarsins brá svo við að Bílddælingum gekk allt í haginn um nokkurt skeið og má segja að orð Sverris hafi orðið að áhrínsorðum.

 

Úr bókinni - Vestfirskir stjórnmálamenn í blíðu og stríðu-

« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30