A A A
  • 1966 - Steinar Ríkarður Jónasson
04.06.2018 - 14:50 | Blábankinn á Þingeyri

Lengi býr að fyrstu gerð

Margir eiga gott samband við ömmur sínar og afa og aðrir jafnvel hafa haft tækifæri til að þekkja vel langömmur sínar og langafa, en færri nú til dags hafa beinlínis alist upp í nánu sambýli með þeim. Þessi nánu samskipti kynslóða í gegnum sambúð, sem eitt sinn var eðlilegur hluti tilverunnar, hefur breyst og samskiptin fjarlægst. „Það voru fjórar kynslóðir í húsinu sem ég bjó í fram til 5 ára, ég átti tvær langömmur og fór mikið með þeim í heimsóknir um sveitina“ segir Hanna Jónsdóttir hönnuður, en hún er fædd og uppalin á Jaðri í Suðursveit. Náin samskipti við eldri kynslóðirnar hefur haft afar mótandi áhrif á Hönnu en hún er elst þriggja systkina. Hún segist alltaf hafa verið mjög tengd fjölskyldu sinni og fann til mikils söknuðar sem barn þegar hún var fjarri þeim. Sem dæmi nefnir hún þegar hún fór með skólanum í ferðalag að Reykjum í Hrútafirði en þá fékk hún svo mikla heimþrá að hún skrifaði afa sínum bréf með dramatískum lýsingum á þeim erfiðu aðstæðum að vera fjarri þeim þá fjóra daga sem skólabúðirnar stóðu yfir. Á gagnfræðiskólaárum sínum stundaði Hanna nám á Höfn í Hornafirði og var þá tíður gestur á elliheimilinu í bænum þar sem hún heimsótti langömmu sína og –afa sem þá höfðu flutt sig úr sveitinni yfir á elliheimilið.

 

Þessi miklu og nánu samskipti Hönnu við formæður og –feður sína kristallast nú að einhverju leyti í nýsköpunarverkefni sem hún vinnur að en Hanna hefur dvalið á Þingeyri nú í maí ásamt Indru, 6 mánaða dóttur sinni, og hópi annarra frumkvöðla sem líkt og Hanna vinna að eigin nýsköpunarverkefnum. Blábankinn hefur staðið fyrir nýsköpunarhraðli 9.-30. maí, sem styrktur er af Uppbyggingarsjóði Fjórðungssambands Vestfjarða, þar sem einstaklingar eða hópar með nýsköpunarverkefni voru valdir úr hópi umsækjenda til þátttöku. Verkefnið er að erlendri fyrirmynd og er orðið hraðall íslenskt heiti á enska orðinu accelerator. Hugmyndin sem liggur til grundvallar er að einstaklingar og/eða hópar sem vinna að nýsköpun fjarlægi sig tímabundið frá áreiti hversdagsins og gefi sér svigrúm til að vinna óhindrað að verkefni sínu. Það sem slíkur hraðall getur veitt umsækjendum er t.d. vinnuaðstaða, gisting og aðgangur að leiðbeinendum, sem og samfélagi við aðra í svipuðum aðstæðum en slíkt getur verið mikil hvatning og veitt jákvætt aðhald. Hraðall er því ekki námskeið í eiginlegum skilningi heldur fremur aðstæður skapaðar til að vinna óhindrað og stuðningur til að skerpa á áherslum, leysa hnúta, og fleyta verkefninu vel áfram, þ.e. hraða ferlinu.

Verkefni Hönnu heitir Hjúfra og er skynörvandi ábreiða eða textílflötur líkt og teppi eða púði sem hefur ólíka áferð, þyngd, lykt og hljóð. Ábreiðunni er ætlað til minnisörvunar fyrir alzheimer sjúklinga á ýmsum stigum og þá ekki síst fyrir þá sjúklinga sem eru á lokastigi sjúkdómsins og þjást af mál- og verkstoli. Hanna vinnur með sterka vísan í náttúruna í verkefni sínu en til þess notar hún líkt og áður sagði ólíka áferð sem minna á hluti úr náttúrunni og hljóð s.s. spiladósir, dýrahljóð o.fl. „Það sem mig langar er að sækja í ljúfar minningar, eitthvað sem er sammannlegt.“ Hún bendir jafnframt á að hugmyndina að ábreiðunni megi teygja vítt og breitt og vinna meðal annars þematískt eins og t.d. með árstíðirnar og fleira í þeim dúr.

Hugmynd Hönnu hefur þróast frá því hún fyrst kynntist heilabilun. „Amma mín fékk blóðtappa um sextugt. Hún var mikil handavinnukona. Ég fylgdist með henni og vildi að hún hefði eitthvað af þessu handavinnudóti inná elliheimilinu hjá sér en aðrir voru ósammála og bentu á að það þýddi ekkert því hún hefði ekki lengur getu til að vinna með þetta.“ Amma Hönnu vann ekki beinlínis með handavinnudótið sitt í þeim skilningi sem við leggjum í það, en það sem gerðist var að hún byrjaði að tæta í sundur gömul handavinnuverkefni en með því var hún að handfjatla það hafði verið henni afar kunnugt. Í gegnum sjúkdóminn hélt amma Hönnu áfram að vinna með höndunum og föndraði við ýmislegt smálegt á sinn máta.

Ástríða Hönnu fyrir verkefninu er greinilega sprottin af góðum æskuminningum og mikilli væntumþykju í garð fjölskyldu sinnar. Í gegnum vinnu, leik og störf hefur leið Hönnu alltaf legið aftur inn á elliheimili með einum eða öðrum hætti og eftir að hafa reynt sig við hjúkrunarfræði sá hún að áhuga hennar væri ekki fullnægt í gegnum hefðbundið starfssvið hjúkrunnarfræðinga. Hún fór því í vöruhönnun og er verkefnið Hjúfra afurð af þeirri vegferð. Hjúfra byrjaði sem hugmynd í hópavinnu en eftir að náminu lauk vildi hún þróa hugmyndina áfram. „Meðan ég var í námi vann ég með alzheimersjúklingum á elliheimili. Þegar ég horfði í kringum mig var þetta svona hópur sem lítið er í boði fyrir. Þar sem ég var, voru þetta einstaklingar sem fengu sjaldan heimsóknir. Ekkert að gerast yfir daginn, bara vaknað og setið í stól. Ein af heimilismönnum var handavinnukona sem bæði saumaði og prjónaði mikið. Ég var m.a. með hana í huga þegar ég byrjaði að hugsa um þetta verkefni.“ Hanna hefur nú unnið að verkefninu í um þrjú ár og starfar samhliða því á alzheimerdeild Hrafnistu.

Ferðalagið frá hugmynd til fullunninar vöru er bæði strembið og krefjandi og mjög háð utanaðkomandi fjármagni og er hægt er að sækja um styrki í ýmsa sjóði en samkeppnin er mikil. Hjúfra er spennandi verkefni sem skipar sess meðal annara á sviði heilsu og tækni en í samfélagi þar sem fólk lifir sífellt lengur er sviðið í stöðugt stækkandi og sterkari krafa á nýjungar og framþróun. Hanna bíður nú svara um hvort verkefnið hennar hljóti styrk sem fleytt gæti verkefninu áfram yfir á næsta stig vöruþróunar. Við óskum Hönnu og verkefninu hennar góðs gengis.

« Október »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31