Kafli úr bókinn Súgfirðingur fer út í heim: - „Hlédrægur unglingur með afar þykk gleraugu“
Miðbæjarskólinn
Úr Hveragerði lá leiðin í Miðbæjarskólann gamla, þar sem ég staldraði við einn vetur, en hóf síðan kennslu í Gagnfræðaskóla Verknáms, þar sem ég kenndi í sjö ár. Þessi viðkoma í miðbænum var frekar tíðindalítil. Á þessum árum var enn raðað í bekki eftir námsgetu og þessi skipting gerði alla vinnu mun auðveldari og um leið árangursríkari en raun bar vitni, þegar hin misskilda, sænska túlkun á hugtökum eins og lýðræði og mannréttindum var tekin upp og nemendum hrúgað í blandaða bekki, þeim til mikils skaða og kennurum til mikils ama og óþarfa erfiðis um ókomin ár.
Þrír eða fjórir 15 ára nemendur í A bekk höfðu lengi komist upp með að blása baunum úr röri í hnakkann á tveimur kennurum, er þeir sneru sér að töflunni og þessum gaurum fannst gaman að reita til reiði. Þeir reyndu þessa takta nokkrum sinnum við mig, svona til prufu. Ég áttaði mig snarlega á því, hverjir voru þar að verki og krafðist þess, að þeir yrðu reknir úr skóla í mánuð. Skólastjóri var friðsemdarmaður og fór að kröfu minni. Þessir piltar urðu góðir vinir mínir síðar og sýndu mér fulla virðingu eftir straffið. Þeir reyndust vera í skátafélagi og báðu mig að hjálpa sér við tiltekin skilti, sem þeir þyrftu að búa til. Þetta var eitthvað í sambandi við Spútnik hinn rússneska, sem þá hafði nýlega verið skotið á loft. Ég gerði þetta að sjálfsögðu með ánægju. Einn þessara pilta varð barnalæknir, annar forstöðumaður Fiskistofu til margra ára. Engir venjulegir kjánar þar á ferð.
Í B-bekk sat aftast feitlaginn, þunglamalegur og hlédrægur unglingur með afar þykk gleraugu. Ég færði hann í fremstu röð þegar ég komst að því, að hann sá ekki það sem skrifað var á töfluna. Ég var umsjónarkennari með þessum bekk og lét þennan feimna ungling í smáleikþátt, sem var hluti af hefðbundnu ferli fyrir jólin með það í huga, að hrista úr honum feimnina.
Ekki veit ég hvaða áhrif þetta kann að hafa haft á Ólaf Ragnar Grímsson, en hann var að minnsta kosti laus við alla feimni, þegar hann kom heim frá Oxford og gerðist umsjónarmaður með fáeinum viðtalsþáttum í Sjónvarpinu. Ég stjórnaði upptökum og var ekki alls kostar sáttur við miður fágaða framkomu hans gagnvart virðulegum viðmælendum og vandaði um við piltinn. Doktor Ólafur svaraði fullum hálsi og ráðlagði mér að sleppa því alveg, að reyna að setja sér einhverjar reglur. Skortur á háttvísi í sjónvarpi kom stjórnanda ekkert við, að hans mati. En viðkoma Ólafs Ragnars í Sjónvarpinu var stutt, hvað svo sem því olli.
Kafli úr bókinn Súgfirðingur fer út í heim.