Í spegli tímans: - Sex ára í fjárrekstri yfir Hrafnseyrarheiði árið 1939 með tómata í nesti
Bjarni Georg Einarsson á Þingeyri hefur lagt gjörva hönd á margt um dagana, enda óvenju vel verki farinn maður. Hann hefur stundað sjóinn, verið vörubílstjóri, verkstjóri í frystihúsinu, útgerðarstjóri og unnið í þeirri frægu Vélsmiðju Guðmundar J. Sigurðssonar og co. hf hvers hróður barst víða um Evrópu á sinni tíð.
Hann var ekki hár í loftinu þegar hann byrjaði að taka til hendinni. Við hittum Bjarna og báðum hann segja okkur nokkuð frá afrekum sínum í æsku.
“Hvað varst þú nú gamall maður, Bjarni, þegar þú fórst fyrst að láta til þín taka?”
“Ég var sex ára og var það sumarið 1939. Ég var í sveit hjá Guðrúnu og syni hennar Aðalsteini Guðmundssyni á Laugabóli í Mosdal í Arnarfirði. Um vorið komu þeir hingað til Þingeyrar á bát sínum, Stíganda, bræðurnir á Laugabóli Aðalsteinn og Guðmundur Valtýr, til þess að láta setja í hann dragnótarspil hér í vélsmiðjunni. Ég var mikið að snúast í kringum þá þegar þeir voru að setja spilið niður og smíða í kringum það og var svona að heimta að fá að fara með þeim vestur að Laugabóli og vera þar í sveit um sumarið og þeir féllust á það og fór ég með þeim vestur á bátnum.”
“Var margt fólk á Laugbóli þetta góða sumar sem er frægt í annálum fyrir veðursældina rétt fyrir seinna stríð?”
“Já, það var nokkuð margt. Við vorum fjórir krakkarnir og vorum við yngst ég og Bjarney Jónsdóttir, minnir mig hún hafi verið, bæði sex ára. Þá var það Höskuldur Skarphéðinsson frá Bíldudal, seinna skipherra og Vilhelm Guðmundsson frá Þingeyri, sem var tveimur árum eldri en ég. Svo var þarna systir Bjarneyjar, sem var um tvítugt og á tímabili Valgerður systir þeirra sem var aðeins eldri. Svo voru það auðvitað Guðrún húsfreyja og Aðalsteinn sonur hennar og Guðmundur Bjarni að mig minnir Guðmundsson, en hann var fóstursonur þeirra Guðrúnar og Guðmundar Ágústs Pálssonar, eiginmanns hennar, sem lést nokkrum árum áður en þetta var. Þau áttu einnig eina dóttur, sem flutt var til Reykjavíkur.”
“Er þetta ekki ánægjulegt sumar í minningunni?
“Jú, það er það. Það er bjart yfir því. Við höfðum ýmislegt að sýsla, reka kýrnar, sækja hestana og reiða heim hey af engjunum utan við Laugaból. Allt slegið með orf og ljá upp á gamla móðinn og við snerum heyinu með hrífunum okkar sem voru hæfilega langar fyrir okkur krakkana. Svo unnum við í mógröfum þarna út frá og ýmislegt annað sem til féll. Þarna var gott að vera og alltaf nóg að borða.”
“Þið hafið sem sagt verið matvinnungar eins og sagt var.”
“Já, já við urðum að vinna fyrir mat okkar, en það var ekkert verið að níðast á okkur. Við lékum okkur á milli, eins og niður í fjöru og svona, en þeim var ekki vel við að við værum mikið þar.”
“Svo leið þetta sumar eins og önnur og komið undir haust og þá lentuð þið Vilhelm í svolítið minnisstæðu ævintýri, ungir menn og stuttir til hnésins!”
“Já, það bar þannig til að þau á Laugabóli voru að selja Guðmundi Jónssyni, vélstjóra á línuveiðaranum Fjölni á Þingeyri, föður Vilhelms, bústofn. Guðmundur var bróðir Páls Jónssonar, föður Páls H. Pálssonar, Bóa Páls, útgerðarmanns í Vísi. Það voru að mig minnir ellefu kindur, einn hrútur og hitt voru ær og lambgimbrar. Féð var flutt á vélbát yfir Arnarfjörð frá Laugabóli að Hrafnseyri og síðan áttum við að reka það yfir Hrafnseyrar- heiðina við Vilhelm, sem var bara tveimur árum eldri en ég.
Aðalsteinn bóndi var skipstjóri á bátnum og mamma hans var með okkur. Þetta mun hafa verið einhverntíma í september 1939, rétt eftir að stríðið byrjaði.
Guðrún húsfreyja fylgdi okkur áleiðis fram Hrafnseyrardalinn og gekk það allt saman vel og voru kindurnar ekkert óþekkar. Guðrún hafði látið okkur hafa nesti og nýja skó eins og þar stendur. Var nestið í hvítum léreftspokum, brauð, kjötmeti og ávextir, en það voru tómatar. Höfðum við fengið að smakka þá um sumarið, en með hverri póstferð frá Bíldudal komu nýir tómatar og kál sem Guðrún hafði fengið frá einhverjum garðyrkjumanni fyrir sunnan. Ég hafði aldrei smakkað tómata fyrr en á Laugabóli. Þeir voru alls ekki til í búðum á Þingeyri í þá daga. Þetta var mjög sérstakt, en okkur strákunum þótti nú tómatarnir ekkert mjög góðir, svo óvanir sem við vorum þeim. Má segja að þeir hafi verið alls óþekktir hér fyrir vestan þá, svo gamla konan á Laugabóli hefur verið nokkuð á umdan sinni samtíð hvað þetta snertir. ”
“Þið hafið náttúrlega stoppað við Ölsteininn til að hvíla ykkur.”
“Já, við fórum gamla þjóðveginn fram dalinn og hvíldum okkur svolítið við steininn og fengum okkur tómata og brauð. Við vorum búnir að heyra af honum og var það skylda að stoppa þar. Við höfðum náttúrlega aldrei farið þarna um áður, annar okkar sex ára sem áður segir og hinn á níunda árinu.”
“Ykkur hefur verið trúað fyrir miklu, það verður að segjast eins og er.”
“Já, og þetta gekk ljómandi vel og fórum við sem leið lá upp á heiði og var féð eins og hugur manns. Þegar við vorum komnir yfir heiðina og niður drögin efst á Brekkudalnum, þá kom Gunnar bróðir minn á móti okkur ásamt ömmu okkar, Gróu Jónatansdóttur og tóku við að hjálpa okkur með reksturinn og það gekk allt eins og í sögu alla leið til Þingeyrar.”
“Voruð þið ekkert hræddir á leiðinni?”
“Nei, nei, við vorum svo vitlausir að við kunnum ekkert að hræðast. En ég held nú að okkur hafi létt þegar þau komu á móti okkur.”
Þessi grein er úr Mannlífi og sögu fyrir vestan, Nýr flokkur, 1. hefti