A A A
  • 1902 - fæddist Halldór Laxness
  • 1950 - Ólafía Sigurjónsdóttir
  • 1965 - Kristbjörg Bjarnadóttir
  • 1989 - Harpa Sjöfn Friðfinnsdóttir
  • 1990 - Snorri Karl Birgisson
  • 1998 - Magnús Freyr Jónasson
22.11.2015 - 18:45 | Hallgrímur Sveinsson

Elís Kjaran - Úr Mannlífi og sögu: Hnífabrýnsl

Elís Kjaran.
Elís Kjaran.

Í gamla daga, þegar ég var bóndi og bjó út í sveit og frystihúsið hjá Kaupfélagi Dýrfirðinga í fullri starfrækslu, var fullt af fólki út úr dyrum að vinna. Þá var oft að við vorum sóttir, sveitavargarnir, þegar mikið barst að, til að hjálpa til við úrvinnslu. Þegar komu nýir menn í frystihúsið, voru kerlingarnar náttúrlega með augun í allar áttir, otandi hnífum að þeim, af því þær vildu fá betri egg í kutann sinn.

   Jóna Jóns, sem var ósköp hæggerð kona og lét aldrei fara mikið fyrir sér sem áður segir, hún kom með hnífinn sinn og bað mig brýna. Ég gerði það auðvitað, strauk stálinu á, því mér var það ósköp létt. Svo sagði ég við hana að nú vildi ég taka gjald fyrir þetta og gjaldið frá henni ætti að vera bara ein vísa. Hún fór og sagði ekki neitt við því. En svo sendi hún mér miða sem á stóð:

 

Besta hnífabrýnsl ég tel

ber að því að hyggja.

Ef að þú gerir allt eins vel

yndi er slíkt að þiggja

 

Kæra þökk í ljóði legg

þó lítilsverð sé baga sú.

Ekki get ég annars egg

eins vel brýnt og hefir þú.

 

Mér þótti virkilega vænt um að fá þessar vísur frá Jónu, því hún lét aldrei fara frá sér stöku án þess hún væri vel gerð. Ég var nú einhversstaðar með hálftóman sígarettupakka í vasanum, reif hann í sundur og skrifaði á pappírinn vísu til hennar:

 

Hann er kvittur kutinn þinn

kátur mun ég þjóna.

Ef eg má í annað sinn

einhverntíma Jóna.

 

   Henni þótti svo vænt um að fá þessa vísu, vissi ekki að ég fiktaði við svoleiðis, að hún gekk upp að mér á leiðinni út, faðmaði mig og spurði hvort ég ætti ekki meira af svona góðu!

         
(Mannlíf og saga fyrir vestan 17. hefti)

« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30