A A A
  • 1935 - Soffía Einarsdóttir
16.04.2019 - 11:47 | Búnaðarfélag Auðkúluhrepps

Ályktanir aðalfundar Búnaðarfélags Auðkúluhrepps

Jón Sigurðsson. „Standmynd sem steypt er í eir.“ Alþingishúsið blasir við. Ljósm. ókunnur.
Jón Sigurðsson. „Standmynd sem steypt er í eir.“ Alþingishúsið blasir við. Ljósm. ókunnur.

Aðalfundur Búnaðarfélags Auðkúluhrepps haldinn í Mjólkárvirkjun 10. apríl 2019 samþykkti samhljóða eftirfarandi ályktanir um þjóðfélagsmál:

Innflutningur á kjöti

Aðalfundurinn skorar á starfandi sláturleyfishafa að taka ekki þátt í innflutningi á kjöti í samkeppni við sjálfa sig.

Laxeldið

Aðalfundurinn er mjög hlynntur laxeldi, en þó án þess að ræktunaraðilar reisi sér hurðarás um öxl. Telur fundurinn að laxeldið geti vel komið að nokkru leyti í stað hnignandi atvinnuvega á Vestfjörðum.   


Hvalárvirkjun

Fundurinn ályktaði að Hvalárvirkjun komi til með að stórauka afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum ásamt því að styrkja byggðir í landshlutanum.


Sameiningarmál

Aðalfundurinn ályktaði að fari svo að samþykkt verði á aðalfundi Búnaðarsambands Vestfjarða, sem haldinn verður á Reykhólum 12. apríl, að búnaðarsambandið sameinist öðru búnaðarsambandi eða búnaðarsamtökum, þá segi Búnaðarfélag Auðkúluhrepps sig úr Búnaðarsambandi Vestfjarða þaðan í frá.

Mál almenns eðlis:

1. Hér á landi virðist ríkja ofgnótt á flestum sviðum. Við ættum því að geta látið alla hafa nóg.


2. Þeir sem ábyrgð bera, svo sem kjörnir fulltrúar, vita margir ekki hvað það orð þýðir. Þeir tala sífellt um að bæta lífskjörin. Fæstir tala um að jafna þau. Atkvæðahræðslan stjórnar þeim leynt og ljóst. Og endalausar skoðanakannanir.


3. Í fjölmiðlum eru daglega nýir og nýir matreiðsluþættir. Við þurfum að sjálfsögðu að læra að elda betri mat, þegar stór hluti mannkyns sveltur. Og hendum svo uppundir helmingnum af öllum þeim mat sem við höfum undir höndum.


4. Þjóðin er endalaust mötuð á því að hún þurfi alltaf eitthvað nýtt. Getur það til dæmis verið lífsnauðsyn fyrir okkur að fá nýja síma á nokkurra mánaða fresti?


5. Við Íslendingar erum að mörgu leyti að glíma við nákvæmlega sama vanda og Rómaveldi forðum, svo sem eins og að láta þræla vinna verstu verkin. Enda fékk það ekki staðist.


6. Löggjafarstofnunin Alþingi er nánast úti að aka alla daga. Stjórnsýsla landsins er á hverfanda hveli. Nú þurfa góðir menn að taka höndum saman.


Alþingismenn gætu til dæmis hætt að láta nægja að horfa á styttu Jóns Sigurðssonar. Láta verkin frekar tala á þann hátt sem hann lagði upp með.  


 





« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31