A A A
  • 1950 - Margrét Guðjónsdóttir
  • 1955 - Angantýr Valur Jónasson
22.09.2015 - 11:01 | Morgunblaðið,BIB

Vestfirskur doktor - Óla Kallý Magnúsdóttir

Óla Kallý Magnúsdóttir.
Óla Kallý Magnúsdóttir.
« 1 af 2 »
Óla Kallý Magnúsdóttir frá Flateyri er fædd árið 1982 og foreldrar hennar eru Magnús Th. Benediktsson og Kristbjörg Magnadóttir sen nú búa á Akureyri. Óla Kallý lauk BS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 2005 og MS-prófi í næringarfræði frá sama skóla árið 2008. Óla Kallý, sem hóf doktorsnám við HÍ árið 2010, hefur verið stundakennari við Háskóla Íslands, starfað við Landspítala – háskólasjúkrahús og komið að fjölda annarra verkefna hjá Rannsóknastofu í næringarfræði frá árinu 2007. Þá hefur Óla Kallý sinnt nefndarstörfum fyrir Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands. Hún er gift Guðmundi Halldórsyni og eiga þau tvær dætur, Þórunni (f. 2008) og Hrafnhildi Ýri (f. 2010).

Óla Kallý Magnúsdóttir hefur varið doktorsritgerð sína í næringarfræði við Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið „Heilkorn – mikilvægur hluti af heilsusamlegu norrænu mataræði. Lífvísar fyrir neyslu heilkornahveitis og -rúgs.“ („Whole grain – an important part of a healthy Nordic diet. Alkylresorcinols as biomarkers for whole grain wheat and rye intake.“) Leiðbeinendur í verkefninu voru dr. Inga Þórsdóttir og dr. Ingibjörg Gunnarsdóttir.

Doktorsverkefnið byggist á gögnum frá tveimur öndvegisverkefnum Nordforsk á sviði næringarfræði, kölluð SYSDIET og HELGA. Annars vegar var um íhlutunarrannsókn að ræða, framkvæmda á sex rannsóknarstofum í Finnlandi, Svíþjóð, Danmörku og Íslandi. Þar voru niðurstöður rannsókna á þátttakendum sem fylgdu heilsusamlegu norrænu mataræði í 18 eða 24 vikur bornar saman við niðurstöður frá viðmiðunarhópi. Hins vegar var framkvæmd fýsileikarannsókn á Íslandi (undirheiti ARI). Meginmarkmið ritgerðarinnar var að auka þekkingu á notkun alkýlresorsínóla (AR), sem lífvísa fyrir heilkornahveiti og -rúg í heilsusamlegu norrænu mataræði og meta tengsl þeirra við sykurefnaskipti og styrk blóðfitu. Auk þess var metinn fýsileiki þess að framkvæma íhlutun með hárri neyslu á heilkornarúgi meðal íslenskra karla, sem neyta að jafnaði lítils magns af heilu korni. Niðurstöðurnar bentu til þess að hægt væri að nota styrk AR í blóðvökva sem lífvísi í heilsusamlegu norrænu mataræði og einnig að hægt væri að nota hlutfall AR-rafkvæmanna C17:0 og C21:0 sem mælikvarða á hlutfallslega rúgneyslu. Þegar gögn frá þátttakendum sem fylgdu heilsusamlegu norrænu mataræði og viðmiðunarhópi voru sameinuð var AR hlutfallið C17:0/C21:0 tengt lægra fastandi insúlíni, hærra insúlínnæmi og hagstæðari blóðfitugildum. Lítið brottfall í fýsileikarannsókninni og góð fylgni við mataríhlutunina benda til þess að íhlutun af slíku tagi sé vel möguleg meðal íslenskra karla.


Morgunblaðið þriðjudagurinn 22. september 2015.
« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30