Vestfirskir listamenn - Rögnvaldur Ágúst Ólafsson
Fæddur að Ytri-Húsum 5. desember 1874 Dýrafirði. Dáinn 14. febrúar 1917 Vífilstöðum Garðabæ.
Öndvegisverk: Húsavíkurkirkja, 1907, Edinborgarhúsið, 1907, Heilsuhælið á Vífilstöðum, 1910.
Rögnvaldur Ólafsson byggingameistari. Það er andlaust verk að vera byggingameistari hugsaði ég. En hann fékk líka orð fyrir að vera mikill lífsspekingur, og ég horfði heillaður á hann. Hann var fallegur maður. Lífsspekingar eru alltaf fallegir menn.“ Þannig kom hinn vestfirski listamaður, Rögnvaldur Ágúst Ólafssyni, meistara Þórbergi Þórðarsyni fyrir sjónum.
Rögnvaldur jafnan nefndur fyrsti íslenski arkitektinn og háttaði til margs Vestfirðingsins í listinni sem þykja oft vera ofvirkir. Hannaði og teiknaði vel yfir 100 byggingar af ýmsum stærðum og gerðum allt frá kirkjum til turna yfir í stórhýsi. Þeirra þekktast Heilsuhælið á Vífilstöðum hvar hann sjálfur var meðal fyrstu íbúa og tapaði hinni erfiðu glímu við berklana aðeins 42 ára að aldri.
Frá turni til heilsuhælis
Fæddur í byrjun desember 1874 á Ytri-Húsum Núpi Dýrafirði. Flyst sex ára að aldri ásamt fjölskyldu sinni til Ísafjarðar. Bróðir hans Jón Þorkell gjörð- ist smiður og áttu þeir bræður eftir að gera nokkur hús vestra saman. Hvar Rögnvaldur teiknaði en Jón smíðaði, þeirra þekktast án efa hið reislulega Edinborgarhús. Af öðrum merkilegum húsum Rögnvaldar á Ísafirði má nefna hinn kostulega turn sem var fyrst til höndlunnar en síðan íbúðar.
Einsog oft vill verða með margan menntaþyrstan á landsbyggð þarf viðkomandi að leita til borgarinnar. Þannig var og með Rögnvald sem stúderaði við Latínuskólann hvar hann útskrifaðist aldamótaárið 1900. Þaðan lá leiðin í Prestaskólann en entist þar aðeins eitt ár enda var hugurinn eigi við hempuna heldur teikninguna.
Strax árið 1897 ritar hann einum vina sinna er þá var við nám í Kaupmannahöfn og bað félagann um að „útvega mér Program Kunstakademíunnar“. Hann fær inni við Det Tekniske Selsaps Skole í Kaupmannahöfn 1901 og þrátt fyrir að vera heisluveill siglir hann utan. Hvað var að hrjá hinn unga mann? Jú, brjóstveikin eða berklarnir illvígu er herjuðu á landsmenn og enn hafði engin lækning fundist. Í fyrstu lék allt í lyndi hjá hinum unga listnema í Höfn en á öðru ári gjöra berklarnir vart við sig að nýju og hann verður sigla aftur heim, próflaus.
Það er þó alltaf eitthvað gott að finna í hverri stöðu því segja má að Rögnvaldur hafi ekki getað komið á betri tíma. Ísland var jú undir stjórn Danmerkur og þaðan hafði svo gott sem öllu verið fjarstýrt til þessa. Nú, 1906, átti að færa völdin meira til heimamanna og komið á svonefndri heimastjórn. Hinn próflausi arkitekt fékk starf sem ráðunautur Íslands um opinberar byggingar. Starf sem síðar fékk hið umdeilda heiti húsameistari ríkisins. Það eru engar ýkjur að segja að verkefnið var risavaxið því það vantaði heilan helling af byggingum útum land allt kirkjur, skóla og ný híbýli fyrir blessað fólkið. Þá kom sér vel að hafa Vestfirðing til starfans enda var Rögnvaldur sannkölluð hamhleypa við teikninguna. Afköstin eru ótrúleg og sérstaklega þegar litið er til þess hve skamman tíma hann fékk á jörðu hér.
Þó Rögnvaldur hefði ekki viljað gjörast prestur þá var hann trúmaður mikill. Hannaði nokkra tugi guðshúsa og hafði mest yndi við þau verk. Fyrsta kirkja hans er Hrepphólakirkja reist árið 1903. Um var að ræða timburkikju en þær urðu fjölmargar nægir þar að nefna Hvanneyrarkirkju, 1905, og Hólskirkju í Bolungarvík, 1908. Hann teiknaði einar 15 steinsteypukirkjur sú fyrsta hin glæsta Bíldudalskirkja, 1905, og eigi er Hafnfjarðarkirkja, 1914, síður sómasamlegt guðshús. Rögnvaldur hafði meiri hug til steinsteypuverka en timburbygginga enda hófst fljótlega sannkölluð steinsteypuöld og hafði þar ekki lítið að segja hinn svonfendi miðborgarbruni, 1915.
Það var allt að gerast á Íslandi á þessum fyrstu árum nýrrar aldar. Menntun hafði eigi verið fyrirferðamikil í landinu til þessa en nú skyldi landann mennta og þá vantaði hús. Og þá vantaði Rögnvald með sinn listræna blýant. Alls teiknaði hann ásamt aðstoðarmanni sínum, Einari Erlendssyni, ein 73 stykki menntahús. Af öllum stærðum og gerðum allt frá skólahúsinu í Haukadal Dýrafirði sem var aðeins ein skólastofa til hins tvílyfta Siglufjarðarskóla sem enn stendur. Áhrif Rögnvaldar í hjarta Reykjavíkur má glöggt sjá í Tjarnargötunni hvar hann teiknaði marga íbúðarhöllina sem og við Smiðjustíg. Rögnvaldur hafði tvo einstaka kosti sem arikitekt og eru verk hans gott dæmi um það. Hann hafði bæði hið listræna og hið tæknilega auk þess var hann lítið fyrir pífur og pár í sínum verkum sem margur arkitektinn vill nú oft týna sér í.
Merkasta verk Rögnvaldar er Heilsuhælið á Vífilstöðum, 1910. Hann var allt í öllu hann gerði uppdrætti alla, var byggingameistari auk þess að útvega allt efni. Ýmsum nýjungum var beitt við bygginguna m.a. járnabinding steinsteypu í milligólf. Allt þetta leysti hann með prýði þó sárþjáður væri. Það er því bæði táknrænt og sorglegt að hann sjálfur skyldi vera einn af fyrstu íbúum hússins.
Elfar Logi Hannesson
Aðalheimild: Björn G. Björnsson. Fyrsti arkitektinn Rögnvaldur Ágúst Ólafsson og verk hans, 2016.
Blaðið Vestfirðingur.