A A A
09.02.2017 - 21:06 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið,Björn Ingi Bjarnason

Valdimar Örnólfsson, fyrrv. íþróttastjóri HÍ – 85 ára - Vakti þjóðina með morgunleikfimi í 25 ár

Valdimar Örnólfsson, fyrrv. íþróttastjóri HÍ – 85 ára
Valdimar Örnólfsson, fyrrv. íþróttastjóri HÍ – 85 ára
« 1 af 4 »
Valdimar Örnólfsson fæddist á Suðureyri í Súgandafirði 9.2. 1932. Hann lauk stúdentsprófi frá MR 1953, íþróttakennaraprófi frá Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni 1954, íþróttafræðiprófi frá Íþróttaháskólanum í Köln 1956, prófi í frönsku og frönskum bókmenntum frá Háskólanum í Grenoble í Frakklandi 1957 að undanförnu frönskunámi við HÍ og háskólana í Köln og Grenoble.

Valdimar var íþróttakennari við MR 1957-67 og kenndi frönsku við sama skóla 1958-72. Hann stjórnaði og kenndi leikfimi í Ríkisútvarpinu á árunum 1957-82 og var íþróttastjóri Háskóla Íslands frá 1967 og þar til hann fór á eftirlaun.

Valdimar stofnaði Skíðaskólann í Kerlingarfjöllum 1961, ásamt Eiríki Haraldssyni, og stjórnaði honum meira og minna fram að aldamótum 2000, þegar loka varð skólanum vegna snjóleysis.

Valdimar lék Harald í Skugga-Sveini í Þjóðleikhúsinu 1961-62, lærði söng hjá Sigurði F. Demetz 1958-61, var einn af stofnendum Söngsveitarinnar Filharmoníu, söng í MR kvartettinum og Stúdentakórnum og söng um áratugaskeið með Karlakórnum Fóstbræðrum og nú síðast með Gömlum Fóstbræðrum.

Valdimar hefur skrifað fjölda greina um íþróttir og útivist í blöð og tímarit. Hann gaf út snældu með morgunleikfimi, ásamt Magnúsi Péturssyni píanista og söngbókina „Valdimaríu“ 1987.

Valdimar var formaður Íþróttakennarafélag Íslands 1957-58, formaður Íþróttanefndar ríkisins 1971-91, var fyrsti formaður Fimleikasamband Íslands 1968-70 og var fyrsti formaður Ólympíuakademíunnar 1987-97.

Valdimar var Íslandsmeistari á skíðum 1952 og í frjálsum íþróttum 1953. Hann tók þátt í fjölda stúdentamóta erlendis, var Frakklandsmeistari stúdenta á skíðum 1957 og í þriðja sæti í stórsvigi á heimsmeistaramóti stúdenta í Zakopane í Póllandi 1958. Hann var í ólympíuliði Íslands í alpagreinum í Cortina á Ítalíu 1956 og var þjálfari og fararstjóri svigmanna á Ólympíuleikunum í Innsbruck 1964.

Valdimar er heiðursfélagi ÍSÍ og FSÍ, og hefur m.a. hlotið riddarakross Fálkaorðunnar.

 

Fjölskylda

Valdimar kvæntist 19.3. 1963 Kristínu Jónasdóttur, f. 24.4. 1933, fyrrv. flugfreyju og forstöðumanni hjá Reykjavíkurborg. Hún er dóttir Jónasar Jósteinssonar, fyrrum yfirkennara, og Grétu Kristjánsdóttur húsmóður.

Synir Kristínar og Valdimars eru:

1) Jónas, f.3.6. 1963, véla og orkuverkfræðingur í Kaupmannahöfn, var kvæntur Elsebeth Aller og eru börn þeirra Laura Kristín fréttamaður, Dagmar stúdent og Valdimar Björn, nemi í menntaskóla;
Örnólfur, f. 4.11. 1964, bæklunar- skurðlæknir, var kvæntur Sóleyju Þráinsdóttur taugalækni og eru börn þeirra Hinrik Þráinn verkfræðinemi, Kristín Valdís verslunarskólanemi og Valdimar Kára grunnskólanemi,
og Kristján, f. 12.1. 1967, bæklunarskurðlæknir í Bodö í Noregi en kona hans er Caroline Saga Tun skurðlæknir og börn þeirra Una Kristín, Edda Sofie og Sturla, grunnskólanemar.

 

Systkini Valdimars:

Finnborg, f. 22.11. 1918, d. 13.6. 1993, útvarpsþulur og leikkona; Þorvarður, f. 14.8. 1927, d. 28.3. 2013, lögfræðingur, kennari og framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Reykjavíkur; Anna, f. 30.12. 1928, d. 16.12. 1999, bankamaður í Reykjavík; Guðrún, f. 5.12. 1929, d. 9.4. 1933; Ingólfur Óttar, f. 1.7. 1933, viðskiptafræðingur og fyrrv. skrifstofustjóri; Arnbjörg Auður, f. 4.5. 1935, söngkona; Þórunn, f. 21.10. 1937, d. 23.8. 2013, húsmóðir; Margrét, f. 2.10. 1941, fyrrv. læknaritari; Guðrún Úlfhildur, f. 1.8. 1943, húsmóðir, og Sigríður Ásta, f. 12.8.1946, húsmóðir.

 

Foreldrar Valdimars:

Örnólfur Valdimarsson, f. 5.1. 1893, d. 3.12. 1970, kaupmaður og útgerðarmaður, og Ragnhildur Kristbjörg Þorvarðardóttir, f. 24.2. 1905, d. 16.9. 1986, kennari og húsmóðir. Þau bjuggu á Suðureyri við Súgandafjörð til 1945 er þau fluttu til Reykjavíkur.

 

Morgunblaðið 9. febrúar 2017.

 

 

« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30