A A A
  • 1997 - Ragnhildur Anna Ólafsdóttir
  • 2000 - Andrea Sif Bragadótir
Alda Agnes Gylfadóttir - tengdadóttir fjarðarins-
Alda Agnes Gylfadóttir - tengdadóttir fjarðarins-
Áhugavert hefur verið að fylgjast með uppbyggingunni hjá Einhamar Seafood í Grindavík. Fyrirtækið, sem var stofnað árið 2003 af Stefáni Kristjánssyni og Helenu Söndru Antonsdóttur, hefur vaxið jafnt og þétt síðan þá. Framan af var Einhamar Seafood eingöngu í útgerð en árið 2007 eignaðist fyrirtækið fiskvinnslu. Starfsmennirnir eru núna um 60 talsins, þar af í kringum 35 sem starfa í landi, og unnið er úr á bilinu 4.500 til 5.000 tonnum af afla árlega, og þá eingöngu þorski og ýsu.


Alda Agnes Gylfadóttir, tengdadóttir Dýrafjarðar, er framkvæmdastjóri fyrirtækisins og segir hún að það hafi miklu breytt fyrir starfsemina þegar Einhamar eignaðist á síðasta ári tvo nýja 30 tonna báta sem smíðaðir voru hjá Trefjum í Hafnarfirði og komu í stað þriggja smærri báta sem fyrirtækið hafði haft á veiðum áður. „Nýju bátarnir eru stærri en þeir gömlu, en samt í „litla kerfinu“, geta komist lengra og veitt í verri veðrum sem þýðir aukinn stöðugleika í framboði á hráefni fyrir fiskvinnsluna okkar og viðskiptavini. Nýju bátarnir eru líka búnir kælikerfi frá 3X sem skilar mun betra hráefni í land, og krapaður fiskurinn er settur í lágkör um borð sem svo er landað beint upp á bryggju í stað þess að aflanum sé hvolft á milli kara með tilheyrandi hnjaski.“

 

Kælingin lengir hillulífið

Segir Alda að kælibúnaður 3X þýði að hráefnið er rétt undir 0°C þegar komið er að landi og lengir það líftíma vörunnar til muna. „Ef það er bræla framundan getum við birgt okkur upp lengra fram í tímann því þetta vel kælda hráefni á hæglega fjórum eða fimm dögum lengra hillulíf en fiskur sem kældur er með hefðbundnum aðferðum. Þetta þýðir rosalegt hagræði í framleiðslustjórnuninni. Síðasti vetur var miklu verri en veturinn á undan, en við fundum mun minna fyrir því í rekstrinum þökk sé nýju bátunum. Fiskurinn er líka betri, enda veiddur fjær landi og fyrir vikið lausari við hringorm. Mest munar samt um afhendingaröryggið. Í þessum bransa ríður á að geta skaffað þá vöru sem viðskiptavinurinn reiknar með, á réttum tíma.“

Einhamar Seafood selur einkum til Bandaríkjanna og Evrópu, en þó ekki til Frakklands. Alda segir vandamálið við franska markaðinn að þar virðist ekki hægt að treysta á viðskiptasamböndin. „Við tryggjum afhendingaröryggið árið um kring, jafnvel þegar fiskur er dýr og við þurfum að kaupa hann á markaði, en á móti eru kúnnarnir að standa með okkur jafnvel þó að hluta úr ári megi kaupa ódýrari fisk af Norðmönnum. Í tilviki Frakklands virðist erfitt að byggja upp þannig viðskiptasambönd.“

 

Máttu ekki sjást kjassast

Alda er merkileg kona fyrir margar sakir. Hún var tólf ára þegar hún vann sína fyrstu vakt í frystihúsi á Ólafsfirði og útskrifaðist 18 ára frá Fiskvinnsluskólanum, sennilega yngsti verkstjórinn til að ljúka þar námi. „En skiljanlega vildi enginn ráða 18 ára gerpi til að reka fyrir sig frystihús, nema hvað kaupfélagsstjórinn á Þingeyri var frá Ólafsfirði, vissi hverra manna ég var og leyfði mér þess vegna að stýra fiskvinnslunni þar.“

Seinna meir fór Alda á sjó sem gæðaeftirlitsmaður og háseti. Hún var sjómaður í rösklega fimm ár samtals og var lengsta veiðiferðin 62 daga túr í Smuguna. Eins og vera ber hafði Alda fundið sér sjómann sem henni leist ágætlega á en þeim gekk ekki vel að vera saman enda hvort á sínum togaranum og sjaldan að bæði voru í landi á sama tíma. Varð því úr að Alda fékk pláss á sama skipi þar sem hún var niðri í vinnslunni en hann uppi í brú sem stýrimaður og síðar skipstjóri. „Hann lagði mjög mikla áherslu á það að enginn um borð sæi okkur kjassast enda gengur ekki annað í löngum túr en að einbeita sér alfarið að vinnunni.“

 

Þarf að vinna til jafns við hina

Alda lýsir árunum á sjónum með hlýhug en segir um leið að vinnan hafi verið krefjandi og hún hafi í raun þurft að verða „einn af strákunum“. „Ég þekki til nokkurra kvenna sem hafa ílengst á sjó og við virðumst allar eiga það sameiginlegt að vera svolitlar strákastelpur. Það er eitthvað brenglað í okkur testósterónmagnið,“ segir Alda og hlær.

Hún segir að konur geti vel átt erindi um borð en þar komist samt enginn upp með að geta ekki unnið til jafns við alla hina. Öldu leist ekki alveg á blikuna í sinni fyrstu veiðiferð. „Það var á Sigurbjörgu ÓF og mér var sagt að fara niður í lestina að vinna. „Þarna niður?“ sagði ég og var ekki á því að príla niður mjóan stigann. Var mér þá sagt, af manni sem í dag er mikill góðvinur minn, að annaðhvort færi ég niður í lestina, eða í togrennuna og út í sjó,“ segir hún. „Um borð verða allir að standa sig og maður vill ekki koma aftur í land með það á herðunum að einhver annar hafi þurft að vinna fyrir mann vinnuna.“

 

Reynslan á sjó ómetanleg

Til að gera langa sögu stutta þá hætti Alda að sækja sjóin þegar hún eignaðist sitt fyrsta barn. Hún afréð síðan að læra viðskiptalögfræði við Háskólann á Bifröst og starfaði svo í banka í mörg ár þar til henni bauðst framkvæmdastjórastaðan hjá Einhamar Seafood árið 2012. Hún segir að allt það sem hún lærði úti á sjó, og í fiskvinnslunni á landi, sé ómetanlegt við stjórnun fyrirtækisins í dag. „Ég hugsa til þess sem Bubbi Morthens sagði þegar dóttir íslenskrar dægurlagastjörnu ætlaði að slá í gegn erlendis. „You have to be local before you become global,“ sagði Bubbi. Það styrkir mig mjög í starfi að við vinnsluna er ekkert í gangi sem ég ekki kann og skil, og ekkert starf sem ég gæti ekki gengið í.“

 

Morgunblaðið fimmtudagurinn 18. júní 2015.

« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30