A A A
  • 1954 - Gunnhildur Björk Elíasdóttir
  • 2009 - Katrín Júlía Helgadóttir
Pétur sjómaður Sigurðsson. Ljósm. ókunnur.
Pétur sjómaður Sigurðsson. Ljósm. ókunnur.
« 1 af 2 »

„Tekjur sjómanna bar oft á góma á þingi og í dægurmálaumræðunni og varð ég oft að leiðrétta misskilning sem þráfaldlega kom fram í máli manna. Það var aldrei tekið með í reikninginn við samanburð á launum sjómanna og annarra stétta, hversu langan vinnudag sjómenn unnu eða við hvaða aðstæður.“

   Sá sem tók svo til orða var enginn annar en Pétur sjómaður Sigurðsson, alþingismaður lengi og grjótpáll sjómanna í áratugi. Ekki síst þegar þeir voru komnir að fótum fram og þurftu á skjóli að halda. Hrafnistuheimilin munu halda nafni hans á lofti. Bolvíkingurinn Ásgeir Jakobsson samdi ævisögu Péturs (Setberg 1995) og var þá reyndar sjálfur á síðasta snúningi, ásamt Pétri. Sonur Ásgeirs, Jakob rithöfundur og bókaútgefandi, gekk þá í verkið með þeim og kom því í höfn.

   Pétur segir svo í bók þeirra:

   „Einhverju sinni lét ég gera fyrir mig yfirlit sem bar saman tekjur sjómanna miðað við daglaunamenn í landi, þegar vinnutíminn hafði verið tekinn með í reikninginn. Ég tók dæmi af netamanni á aflahæsta togaranum og almennum hafnarverkamanni. Viðmiðunarárið var 1979. Tekjur netamannsins reyndust vera 610.628 kr. á mánuði. Ef tekið var mið af almennu yfirvinnuálagi og almennu vaktaálagi verkamanns í landi, skilaði netamaðurinn 494 dagvinnutímaeiningum í mánuði, en það þýddi að hann hafði 1.235 kr. í laun á klst. eða 214,125 kr. á mánuði, ef hann hefði unnið 40 stunda vinnuviku. En laun hafnarverkamannsins fyrir 40 stunda vinnuviku námu þá 287,967 kr. eða um 34% meira en 40 stunda vinna gaf netamanninum á aflahæsta togaranum í aðra hönd.---

   Var nema von að mér væri stundum spurn í hverju þetta utangarnakjaftæði fjölmiðlamanna, ráðherra og ráðamanna um sjómenn sem hátekjumenn lægi? Er maður hátekjumaður vegna þess að hann er á lágu tímakaupi en vinnur ómanneskjulega langan vinnutíma? Er maður hálaunamaður, sem vinnur langan vinnudag af því að hann á engra annarra kosta völ og getur ekki neitað, samanber svokölluð sjólög? ---

   Það er sannleikur, að fiskimenn okkar skila ekki aðeins meiri afköstum en flestar aðrar stéttir þessa þjóðfélags, heldur gera þeir það undir þeim kringumstæðum sem engin önnur stétt þarf að gera, því að þeir búa við vosbúð í starfi og stöðuga hættu.“

    Og lýkur þar með tilvitnun í þá félaga Pétur sjómann og Ásgeir Bolvíking, rithöfund og sjómann. Ágætt til umhugsunar fyrir okkur landkrabbana, sem aldrei höfum migið í saltan sjó!   

« Nóvember »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30