A A A
  • 1950 - Margrét Guðjónsdóttir
  • 1955 - Angantýr Valur Jónasson
Gamla Þing-og skólahúsið undir Auðkúlubökkum. Það er nú horfið af yfirborði jarðar, en grunnurinn stendur eftir.
Gamla Þing-og skólahúsið undir Auðkúlubökkum. Það er nú horfið af yfirborði jarðar, en grunnurinn stendur eftir.

Á þessu ári eru liðin 60 ár frá Kúlubardaganum mikla sem háður var á þingstaðnum Auðkúlu í Arnarfirði 1956. Þá stóð þar undir Auðkúlubökkum skóla-og þinghús Auðkúluhrepps, sem var rúmir 20 fermetrar að stærð. Í húsi þessu voru meðal annars haldin fræg sveitaböll eins og þau gerðust best í gamla daga. Ein slík samkoma geymist einkum í minni manna, sem í sögunni hefur gengið undir nafninu Kúlubardaginn mikli. Er talið að bardagi þessi sé með síðustu meiri háttar almenningsslagsmálum í Íslandssögunni og hlutu þar margir menn sár og urðu ákaflega móðir, að sögn viðstaddra, en vígaferli urðu þó engin. Lítið hefur verið um Kúlubardagann mikla skrifað fram að þessu og er nú sannarlega kominn tími til að bæta þar úr að nokkru, enda margir sem lyftast bara upp þegar bardagi þessi berst í tal manna á milli.

   Fróðir menn segja að til sé dagbókarbrot,  sem segir frá bardaganum, að Mýrum í Mýrahreppi í Dýrafirði. Er fullyrt að Valdimar bóndi Gíslason hafi fært þá bók. Var hann sjónarvottur að þessari miklu fólkorustu, ásamt mörgum fleiri Mýrhreppingum ,sem voru á ferðalagi með Kvenfélagi eða Ungmennafélagi Mýrahrepps þegar atburðurinn átti sér stað. Sextíu ár eru þó nokkur tími og ætti að vera óhætt að aflétta leyndardómi þeim sem hvílir á þessu dagbókarbroti. Yfirleitt láta menn sér nægja fimmtíu ár undir slíkum kringumstæðum, þannig að nú reynir á!

   Frá því er að segja að Garðar J. Waage, þá bóndi á Hrafnseyri, varð þrítugur um þetta leyti og var hann að halda upp á afmæli sitt að fornum sið og stóð hann fyrir umræddri samkomu og sló upp balli. Hélt Garðar uppi risnu mikilli og hafði lagt í kút sinn tímanlega svo mungátin yrði með hæfilegum styrkleika í veislunni, en þar var fjöldi manna mættur, aðallega úr Dýrafirði og Arnarfirði, til að gera sér glaðan dag og heiðra afmælisbarnið.

   Auðvitað var viss aðdragandi að því að slagsmál hófust eins og alltaf. Eftir því sem næst verður komist, mun það hafa verið Gunnlaugur Sigurjónsson, auknefndur Maðurinn með stálhnefana, einkavinur Garðars Waage, þá bóndi á Tjaldanesi utan Auðkúlu, en síðar biskup í Fellasókn og fiskeldisfrömuður í Dýrafjarðarþingum, sem aðallega var til varnar fyrir þá Arnfirðingana, en helstu mótherjarnir voru þeir Lægstahvammsbræður úr Dýrafirði. Sóttu þeir hart að Gunnlaugi á tímabili en hann varðist af miklum fræknleik og rotaði nokkra áður en yfir lauk, en varð þó að flýja á handahlaupum undan ofureflinu að lokum

   Sem áður segir var fjöldi manns mættur í afmælisveislu Garðars á Hrafnseyri. Sumir tóku þátt í bardaganum en margir voru þeir sem voru sjónarvottar. Höfum við náð tali af tveimur  þeirra og fara þau viðtöl hér á eftir. En þess ber að minnast að ekki sjá allir hlutina með sömu augum, hvorki slagsmál né annað.


« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30