A A A
10.02.2017 - 11:05 | Vestfirska forlagið,Björn Ingi Bjarnason,bb.is

STOFNFUNDUR FÉLAGS UM LÝÐHÁSKÓLA Á LAUGARDAG - 11. febrúar 2017

Félagsbær á Flateyri. Ljósm.: BIB
Félagsbær á Flateyri. Ljósm.: BIB
« 1 af 3 »

Á morgun. laugardag 11.febrúar 2017, verður stofnfundur félags um lýðháskóla á Flateyri haldinn í Félagsbæ. Tilgangur félagsins er að vinna að undirbúningi og stofnun lýðháskóla á Flateyri. Allir eru velkomnir á fundinn og teljast þeir til stofnfélaga sem skrá sig í stofnfélagaskrá sem verður á staðnum. Það er rík lýðháskólahefð á Norðurlöndunum, sérstaklega í Danmörku. Í skólunum er mikil áhersla á mannrækt og að nemendur geti sniðið sér nám til þess að efla sig og kynna sér ólíkar námsgreinar. Ekki er lögð áhersla á próf heldur þátttöku og að nemendur á öllum aldri geti komið og dvalið í eina eða tvær annir, kynnst nýjum stað og fólki, tekist á við ólík viðfangsefni og haft gagn og gaman af.  Á Íslandi er lýðháskóli starfræktur á Seyðisfirði og í undirbúningi er lýðháskóli á Laugarvatni sem mun leggja áherslu á íþróttir.

Fyrir nokkru kviknaði sú hugmynd að stofna lýðháskóla á Flateyri og í nóvembermánuði síðastliðnum kynnti stýrihópur um lýðháskóla hugmyndina fyrir bæjarráði Ísafjarðarbæjar. Dagný Arnalds íbúi á Flateyri er ein þeirra sem skipa stýrihópinn. Hún segir þegar heilmikla greiningarvinnu hafa átt sér stað og það sé niðurstaða hópsins að Flateyri sé mjög heppilegur kostur fyrir lýðháskóla: „Við höfum almennt fengið mjög jákvæð viðbrögð við hugmyndinni og nú vinna t.d. um 30 manns í sjálfboðastarfi við að koma þessum málum áfram, móta námsframboðið og fleira slíkt.

Stefnan er að bjóða upp á nám sem byggir á styrkleikum staðarins og sérstöðu og fá meðal annars til liðs við okkur fólk á svæðinu, sem hefur fjölbreytilega reynslu og þekkingu sem er dýrmæt og við erum fullviss um að eftirspurn er eftir.

Við stefnum á 3-4 brautir sem er verið að móta. Þessar brautir fela t.d. í sér fjallamennsku og umhverfisfræði og verður m.a. samstarf við björgunarsveitir svæðisins, leiðsögufólk, bændur og útgerðarfólk.  Kvikmyndagerð og tónlist yrðu líka á boðstólnum og margir sem eru tilbúnir að koma að því námi. Þar á meðal er t.d.  fólk sem tengist Flateyri sterkum böndum og er öllum hnútum kunnugt í kvikmyndagerð. Tónlistarhefð er líka rík á svæðinu og margt skemmtilegt og áhugavert sem hægt er að vinna með. Þar eru líka margir tilbúnir að leggja hönd á plóg.“

Dagný segir vonir standa til að lýðháskólinn taki til starfa ekki síðar en haustið 2018. Undirbúningsvinna hafi gengið vel og hópurinn bjartsýnn. Enn vantar þó nægilegt fjármagn til þess að geta hafist handa strax næsta haust, en Dagný segir þó dæmi um það í tilverunni að hlutir fari fram úr björtustu vonum og aldrei að vita nema slíkt hendi í tilfelli lýðháskólans.

Ekki liggur alveg ljóst fyrir á þessari stundu hvar lýðháskólinn verður til húsa og segir Dagný margar leiðir færar í þeim efnum: „Það er töluvert af vannýttu húsnæði á Flateyri og mikill velvilji í samfélaginu til þess að verða okkur að liði í þeim efnum. Lýðháskóli þarf ekki að vera í einu húsi með skólabjöllu en það er mikilvægt að nemendur kynnist samfélaginu og fái að vera þátttakendur í því. Húsnæðismálin eru smám saman að skýrast en það verða sjálfsagt námskeið á nokkrum stöðum í þorpinu.“

Hvatinn að efla samfélagið

Dagný segir að lýðháskólinn geti reynst gífurleg lyftistöng fyrir samfélagið á Flateyri: „Það mun efla samfélagið heilmikið ef við fáum kannski 40-50 nemendur og einhverjir þeirra jafnvel með börn. Þá er mikilvægt að við getum boðið góða þjónustu, til að mynda góðan leikskóla og skóla og að vel sé tekið á móti fólkinu. Við erum sannfærð um að okkur takist það ef allir leggjast á eitt.

Við sjáum líka fyrir okkur samstarf við fjölmarga aðila utan Flateyrar og margir þeirra sem eru í undirbúningsvinnunni með okkur og koma til með að taka þátt í starfinu eru búsettir í nágrannabæjunum eða bara víðsvegar um landið. Þegar er verið að skoða möguleika á samstarfi við bændur í nágrenninu í sambandi við umhverfisbrautina og ég held að styrkleiki verkefnisins verði fólginn í því hversu margir eru tilbúnir að leggja því lið. Á Vestfjörðum er þétt og öflugt samfélag þó að við höfum þurft að takast á við ýmsar áskoranir og sumar heldur snúnar. Með því að sameina kraftana getur afraksturinn orðið til þess að efla samfélagið okkar og það er þegar allt kemur til alls leiðarljósið og hvatinn að þessu verkefni.“

Alþingi ályktaði síðastliðið sumar að fela menntamálaráðuneytinu að hefja vinnu við gerð frumvarps til almennrar löggjafar um lýðháskóla á Íslandi. Markmiðið er að gera lýðháskóla að viðurkenndum valkosti í menntun sem njóti lagalegrar umgjarðar og stuðnings hins opinbera. Frumvarpið á að líta dagsins ljós ekki síðar en  á vorþingi 2017.

Stofnfundurinn verður sem áður segir í Félagsbæ (Gunnukaffi/Gamla kaupfélagið) við Hafnarstræti á Flateyri á morgun, laugardag  11.febrúar 2017,  og hefst hann klukkan 13.


 

« Nóvember »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30