A A A
  • 1949 - Guðberg Kristján Gunnarsson
  • 1962 - Unnur Cornette Bjarnadóttir
06.09.2016 - 07:23 | Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir,skutull.is,Vestfirska forlagið

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir: - Vegir liggja til allra átta - en hver ræður för?

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, alþingismaður
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, alþingismaður
Samgöngur eru lífæð okkar Vestfirðinga – á þeim veltur atvinnulíf og þróun byggðar. Enn er þó langt í land með að okkar fjallskorni fjórðugur standi jafnfætis öðrum landshlutum í þeim efnum. Vestfirðingar verða að standa vel saman í samgöngumálum - það hefur reynslan kennt okkur. Að öðrum kosti er hætt við því að niðurstaðan verði sú sama og í dægurlaginu góða að „enginn ræður för“.

Dýrafjarðargöng

Gleggsta dæmið um langvarandi áhrifaleysi Vestfirðinga í þessum málaflokki er sífelld frestun Dýrafjarðarganga. Þau voru talin brýnasta gangaframkvæmdin á fyrstu jarðgangaáætlun Vegagerðarinnar um síðustu aldamót, en höfðu við lok fyrsta áratugar færst aftur til ársins 2022. Með harðfylgi tókst á síðasta kjörtímabili að koma Dýrafjarðargöngum aftur á dagskrá og fá þeim flýtt. Núverandi ríkisstjórn frestaði á ný, en þó er útlit fyrir að göngin verði boðin út í haust. Samhliða er nauðsynlegt að byggja upp veg um Dynjandisheiði til að tryggja heilsárssamgöngur milli Ísafjarðar og Patreksfjarðar og virðist nú loks sem skriður sé kominn á málið.

Álftafjarðargöng

Fleiri verkefni eru brýn í samgöngumálum. Súðavíkurgöng (Álftafjarðargöng) hafa enn ekki komist á jarðgangaáætlun. Þyrftu þau þó að verða næst í röðinni með tilliti til umferðaröryggis eins og segir í þingsályktunartillögu sem ég lagði fram um málið á Alþingi, fyrst árið 2013 og aftur nú í vor.


Vegurinn um Kirkjubólshlíð og Súðavíkurhlíð inn Djúp er talinn einn hættulegasti vegur landsins. Hann er helsta samgönguæð þeirra sem þurfa að komast landleiðina að og frá Ísafjarðarbæ og Bolungarvík yfir vetrarmánuðina. Dæmi eru um að fallið hafi flóð úr 20 af 22 skilgreindum snjóflóðafarvegum í Súðavíkurhlíð í illviðrum undanfarinna ára. Í einu slíku veðri, ekki alls fyrir löngu, tepptu snjóflóð á hlíðinni allar bjargir og aðföng til og frá Ísafirði, Bolungarvík, Flateyri, Suðureyri og Þingeyri. Slíkar aðstæður eru óásættanlegar fyrir íbúa á norðanverðum Vestfjörðum og hlýtur öllum að vera ljóst hvílíkt 
öryggismál er hér um að ræða.  


Stafrófið um Þorskafjörð

Þriðja brýna stórframkvæmdin er að sjálfsögðu vegurinn um Gufudalssveit. Nýi vegurinn leysir af hólmi núverandi Vestfjarðaveg (41,6 km) á milli Bjarkalundar og Skálaness um Þorskafjörð, Hjallaháls og Ódrjúgsháls, og verður 18-20 km styttri en sá gamli.


Áralangar deilur hafa staðið um leiðarvalið, einkum vegna Teigskógar í Þorskafirði sem hefur tafið lausn málsins úr hófi fram. Skoðaðar hafa verið margar leiðir, merktar bókstöfum sem spanna nú hálft stafrófið. Sem stendur er reynt til þrautar að ná fram B-leiðinni um Teigskóg – hún er ákjósanlegust að allra mati og vonandi að það takist. Ef ekki, kárnar gamanið því íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum geta ekki beðið lengur eftir ásættanlegum láglendissamgöngum og tengingu við hringveginn. Staðan væri þó ekki vonlaus. I-leiðin svokallaða gerir ráð fyrir þverun Þorskafjarðar og vegi inn með honum sunnanmegin í átt að Bjarkalundi. Þá leið mætti skoða ef ekkert gengur meðTeigskóg. Hún er dýrari – en eins og fyrr segir þá er ekki boðlegt að láta málið velkjast mikið lengur.

 

Samstöðu er þörf

Enn er mikið verk óunnið í vegamálum okkar Vestfirðinga og því verðum við að standa saman sem einn maður um brýnustu úrbætur: Að ljúka við Dýrafjarðargöng, koma Álftafjarðargöngum inn í samgönguáætlun sem næstu jarðgangaframkvæmd á Vestfjörðum og ljúka vegalagningu um Gufudalssveit. Er þá ónefndur Árneshreppur á Ströndum sem enn er án vegasambands yfir vetrarmánuðina.


Vegir liggja til allra átta – en reynum sjálf að ráða för. 

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, alþingismaður

 
« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31