A A A
  • 1981 - Berglind Hrönn Hlynsdóttir
Páll H. Pálsson frá Þingeyri og Margréti Sighvatsdóttir.
Páll H. Pálsson frá Þingeyri og Margréti Sighvatsdóttir.
« 1 af 3 »
Minningartónleikar um hjónin Pál H. Pálsson frá Þingeyri og Margréti Sighvatsdóttur, stofnendur Vísis hf., verða haldnir annað kvöld (í kvöld 7. júní), en þau hefðu átt 60 ára brúðkaupsafmæli um helgina. Að tónleikunum standa börn þeirra hjóna, en systkinin koma sjálf fram ásamt börnum sínum og barnabörnum og spanna flytjendur því þrjár kynslóðir. Valinkunnir hljóðfæraleikarar leggja systkinunum lið, en hljómsveitinni stjórnar Vilhjálmur Guðjónsson. Jón Ólafsson tónlistarmaður sér einnig um stjórn tónleikanna og meðal gestasöngvara er Ragnar Bjarnason.

 

Í minningu fjölskylduföður

Páll H. Pálsson lést fyrr á árinu, en börn hans gáfu nýverið út hljómdisk í minningu föður síns. Diskurinn inniheldur sjómannalög, Páli til heiðurs, og ber nafnið „Lögin hans pabba“.

„Sjómannalögin eru samofin baráttu Íslendinga fyrir þeim lífsgæðum sem við njótum í dag og við erum stolt af þætti pabba í þeirri baráttu,“ segja systkinin. Lögin eigi það sameiginlegt að fjalla á einn eða annan hátt um ástina og rómantíkina og séu líka táknræn fyrir tíðarandann.

 

„Lögin hennar mömmu“

Fyrir fimm árum gáfu systkinin út hljómdiskinn „Lögin hennar mömmu“, sem tileinkaður er móður þeirra, Margréti Sighvatsdóttur. Hann inniheldur frumsamin lög og texta Margrétar, var gefinn út í tilefni áttræðisafmælis hennar og naut mikilla vinsælda. Lögin urðu til við ýmis tilefni en nokkur þeirra eru samin til Páls þegar hann var á sjó. „Tónlistin var líf hennar og yndi og það var gott að alast upp hjá móður sem lét ekkert stoppa sig í að gera lífið skemmtilegt,“ segja systkinin um móður sína, en hún kom víða við í tónlistinni og samdi meðal annars barnasöngleiki sem settir voru upp í félagsheimilinu Festi. Margrét lést fyrir þremur árum.

Á tónleikunum verða leikin lög af báðum diskunum, en þeir hefjast klukkan átta annað kvöld og fara fram í Grindavíkurkirkju. Frítt er inn á tónleikana en „Lögin hans pabba“ verða til sölu á staðnum og rennur söluandvirði hljómdisksins óskipt til Grindavíkurkirkju.

 

Hátíðarhöld í tilefni sjómannadags

Vísir stendur á sjómannadaginn fyrir veglegri dagskrá í tilefni dagsins og 50 ára afmælis fyrirtækisins á árinu. Milli klukkan 14 og 17 gefst gestum kostur á að skoða báðar fiskvinnslur fyrirtækisins undir leiðsögn eigenda og verður boðið upp á fisksmakk og afmælisköku. Víða um svæðið verður lifandi tónlist, en þar leikur djassband Vilhjálms Guðjónssonar, Vísiskórinn, undir stjórn Margrétar Pálsdóttur og Reynir Jónasson harmonikkuleikari.

 

Morgunblaðið laugardagurinn 6. júní 2015

« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30