A A A
  • 1935 - Soffía Einarsdóttir
13.07.2016 - 23:32 | Morgunblaðið,Vestfirska forlagið

Merkir Íslendingar - Hákon Bjarnason

Hákon Bjarnason.
Hákon Bjarnason.
Hákon fæddist í Reykjavík 13. júlí  1907, sonur dr. Ágústs H. Bjarnason, heimspekings, prófessors og háskólarektors, og k.h. Sigríðar Jónsdóttur, kennari við Kvennaskólann.

Ágúst var sonur Hákonar Bjarnasonar, kaupmanns á Bíldudal, og k.h., Jóhönnu Kristínar Þorleifsdóttur, en Sigríður var dóttir Jóns Ólafssonar, ritstjóra og alþingismanns, og Helgu Eiríksdóttur húsfreyju. Hálfbróðir Jóns, samfeðra, var Páll Ólafsson skáld.

Hákon var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Guðrún Magnúsdóttir og eignuðust þau eina dóttur, Ingu deildarstjóra. Þau slitu samvistum.

Síðari kona hans var Guðrún Bjarnason og eignuðust þau fjögur börn: Laufeyju kennara; Ágúst grasafræðing; Björgu flugfreyju og Jón Hákon, skógtæknifræðing og skrúðgarðyrkjumeistara.

Hákon lauk stúdentsprófi frá MR 1926, prófi í skógrækt frá Landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1932, og stundaði framhaldsnám í Englandi og í Stokkhólmi.

Að námi loknu varð hann framkvæmdastjórn Skógræktarfélags Íslands og var skipaður skógræktarstjóri ríkisins 1935.

Enginn einn maður hefur unnið íslenskri skógrækt jafn mikið og Hákon. Hann gegndi æðstu embættum er lúta að skógrækt hér á landi allan sinn starfsferil til 1977. Skógræktarhugsjónin átti oft undir högg að sækja og harða andstæðinga hér á landi, ekki síst meðal málsvara hefðbundins landbúnaðar. Þá kom oftast til kasta Hákonar að verja hugsjón sína. Hann var fyrsti hámenntaði skógræktarsinninn, vissi og benti á að Ísland væri í barrskógabeltinu og fann plöntur í Kanada og Alaska, s.s. ösp, lúpínu og sitkagreni sem hafa þrifist mjög vel við íslenskar aðstæður.

Hákon var skapmikill og stjórnsamur baráttumaður. En það var fyrst og fremst þekking hans og vísindaleg vinnubrögð sem urðu til þess að hugsjón hans varð á endanum ofan á.

Hákon lést 16. apríl 1989.

 

Morgunblaðið 13. júlí 2016

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31