A A A
  • 1949 - Guðberg Kristján Gunnarsson
  • 1962 - Unnur Cornette Bjarnadóttir
11.04.2016 - 07:48 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið

Merkir Íslendingar - Guðmundur Guðmundsson - Aldarminning

Guðmundur Guðmundsson
Guðmundur Guðmundsson
Guðmundur Guðmundsson fæddist í Hnífsdal 11. apríl 1916 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Guðmundur Stefán Guðmundsson formaður í Hnífsdal og k.h. Jóna Salómonsdóttir húsmóðir.

Guðmundur fór ungur til náms í Héraðsskólann á Laugarvatni. Vélstjóraréttinda aflaði hann sér á Ísafirði og skipstjórnarréttinda frá Sjómannaskólanum í Reykjavík. Kornungur varð hann skipstjóri, fyrst á Bryndísi ÍS og síðar Hafdísi ÍS. Guðmundur var hafnsögumaður á Ísafirði um árabil.

Árið 1954 sneri hann sér að útgerð og fiskvinnslu og stofnaði síðan Hrönn hf. ásamt fleirum. Guðmundur var lengi í forsvari fyrir útgerð Guðbjargar ÍS en Hrönn hf. gerði út mörg skip með þessu nafni. Guðmundur starfaði við útgerðina fram á níræðisaldur. Hann var formaður Útvegsmannafélags Vestfjarða 1963-87 og í stjórn Landssambands íslenskra útvegsmanna um langt árabil. Hann var lengi stjórnarmaður í Kaupfélagi Ísfirðinga, Íshúsfélagi Ísfirðinga hf., Olíusamlagi útvegsmanna og Vélbátaábyrgðarfélagi Ísfirðinga.

Guðmundur lét til sín taka í tónlistarlífi Ísafjarðar og starfaði mikið að slysavörnum og björgunarmálum. Í áratugi var hann formaður karladeildar SVFÍ á Ísafirði. Hann tók virkan þátt í starfi Frímúrarareglunnar á Ísafirði og í Reykjavík í hartnær 60 ár.

Hann var heiðursfélagi Sjómannafélags Ísfirðinga, heiðursfélagi SVFÍ, hlaut heiðursmerki Frímúrarareglunnar og riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu.

Eiginkona Guðmundar var Guðrún Jónsdóttir húsmóðir, f. á Langeyri í Álftafirði 12.12. 1916, d. 15.11. 1981. Foreldrar Guðrúnar voru Jón Bjarnason trésmiður og k.h. Daníela Jóna Samúelsdóttir húsmóðir. Guðmundur var síðar í sambúð með Margréti Helgu Gísladóttur, f. 3.4. 1924, d. 28.6. 2009. Dætur Guðmundar og Guðrúnar eru Bryndís, f. 1943, Jóna Margrét, f. 1945, og Ingibjörg, f. 1950.

Guðmundur Guðmundsson lést í Reykjavík 13. nóvember 2015.

 

Morgunblaðið mánudagurinn 11. apríl 2016.

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31