A A A
22.07.2016 - 21:48 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið

Merkir Íslendingar - Eiríkur J. Eiríksson

Eiríkur J. Eiríksson
Eiríkur J. Eiríksson
« 1 af 2 »

Eiríkur Júlíus Eiríksson, prestur, skólastjóri og þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, fæddist  22. júlí 1911 að Ekru í Vestmannaeyjum en fluttist fárra vikna gamall á Eyrarbakka.

Faðir hans var Eiríkur Magnússon, trésmiður frá Ölfusi. Hann fluttist til Kaliforníu í Bandaríkjunum, um það leyti sem Eiríkur fæddist, og sneri aldrei aftur. Eiríkur ólst upp hjá einstæðri móður sinni, Hildi Guðmundsdóttur frá Iðu í Biskupstungum, og móðurforeldrum sínum, Guðmundi Guðmundssyni og Jónínu Jónsdóttur.

Eiríkur var í barnaskóla á Eyrarbakka og fór svo í MR og varð stúdent þaðan 1932. Hann tók kennarapróf 1934 og guðfræðipróf frá HÍ 1935. Hann fór svo í framhaldsnám til Basel í Sviss.

Eiríkur varð kennari á Núpi í Dýrafirði 1935, tók sér árshlé meðan hann kynnti sér skólamál á Norðurlöndunum 1936-1937, fór svo aftur að kenna á Núpi og varð skólastjóri þar 1942 til ársins 1960. Á sama tíma var hann sóknarprestur á Núpi.

Árið 1960 varð hann prestur og þjóðgarðsvörður á Þingvöllum og gegndi þeim stöðum til ársins 1981. Hann hætti þó ekki að sinna skólamálum því hann hafði mikil afskipti af Ljósafossskóla og var m.a. prófdómari þar og sat í skólanefnd.

Eiríkur var einn af forustumönnum ungmennafélagshreyfingarinnar. Hann sat í stjórn UMFÍ frá 1936 og var formaður UMFÍ í um 30 ár. Landsmótin voru honum mikið hjartans mál og átti hann þátt í því að endurvekja þau með Landsmótinu í Haukadal 1940. Hann var ritstjóri Skinfaxa, málgagns UMFÍ, um árabil, skrifaði margar greinar í blöð og tímarit og var mikill ræðuskörungur.

Kona Eiríks var Kristín Jónsdóttir, f. 5. október 1917, d. 17. febrúar 1999. Foreldrar hennar voru Jón Ólafsson, bóndi á Gemlufalli í Dýrafirði og kona hans, Ágústa Guðmundsdóttir.

Eiríkur lést í Félagsheimilinu Borg í Grímsnesi 11. janúar 1987 og hafði þá nýlokið afmælisræðu yfir vini sínum.

Morgunblaðið mánudagurinn 22. júlí 2013 - Merkir Íslendingar.

« Nóvember »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30