Merkir Íslendingar - Bogi Melsteð
Jón var sonur Páls Þórðarsonar Melsteð, amtmanns og alþingismanns í Stykkishólmi, og f.k.h., Önnu Sigríðar Stefánsdóttur Melsteð húsfreyju, en Steinunn var dóttir Bjarna Vigfússonar Thorarensen, yfirdómara í Gufunesi í Mosfellssveit og síðar amtmanns og skálds á Möðruvöllum í Hörgárdal, og k.h., Hildar Bogadóttur húsfreyju.
Meðal systkina Boga voru Ingileif, húsfreyja á Búrfelli í Grímsnesi; Bjarni, bóndi í Framnesi á Skeiðum; Anna Sigríður, húsfreyja á Klausturhólum, og Hildur og Stefanía er bjuggu lengst af á Klausturhólum.
Bogi var ókvæntur og barnlaus.
Bogi lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum 1882 og magistersprófi í sagnfræði frá Hafnarháskóla 1890.
Hann dvaldi í Kaupmannahöfn frá því að hann lauk námi og til æviloka, var aðstoðarmaður í ríkisskjalasafninu í Kaupmannahöfn 1893-1903 og styrkþegi Árnasafns í rúm 20 ár samtals. Frá árinu 1904 hafði hann styrk á fjárlögum til að semja sögu Íslands.
Bogi var forgöngumaður um stofnun Hins íslenska fræðafélags árið 1912, var formaður þess frá stofnun til æviloka og jafnframt ritstjóri Ársrits fræðafélagsins frá 1916. Á meðal þeirra rita hans eru Saga Íslendinga sem kom út hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi árið 1903; Stutt kennslubók í Íslendinga sögu handa byrjendum, útg. 1904, og Sögukver handa börnum, ásamt nokkrum ættjarðarljóðum og kvæðum, útg.1910. Þá skrifaði hann fjölda blaða- og tímaritagreina um íslensk málefni, um sagnfræði, stjórnmál og ýmislegt fleira.
Bogi var alþingismaður Árnesinga 1892-1893.
Bogi lést 12. nóvember 1929.
Morgunblaðið 4. maí 2017.