A A A
  • 1932 - Kristín Kristjánsdóttir
  • 2004 - Óttar Pétursson
  • 2006 - Carmen Kristín Vignisdóttir
06.04.2015 - 08:18 | Emil Ragnar Hjartarson,BIB

HEIM UM PÁSKA

Emil Ragnar Hjartarson.  Ljósm.: BIB
Emil Ragnar Hjartarson. Ljósm.: BIB
« 1 af 4 »

Við vorum innilokuð af náttúrunnar hendi nemendurnir í Héraðsskólanum að Núpi veturinn 1951 -1952. Ekki var um að ræða að "skreppa heim um helgi" þó aðeins í næsta fjörð væri eins og seinna var svo auðvelt. Við vorum líka lokuð frá umheiminum á þann hátt að við heyrum aldrei í -útvarpi- fengum aldrei fréttir. Einu sinni var öllum skólalýð smalað í kennslustofu. Þangað var látið koma útvarpstæki og við sátum þögul og hlýddum á útvarp frá jarðför Sveins Björnssonar, forseta. Það var eina útvarpshlustunin þennan vetur !!

En svo leið að páskum og allt í einu fáum við Flateyringarnir tilkynningu um að við megum fara heim í páskavikunni og gætum stoppað heima einn heilan dag. Líklega hefur Arngrímur,kennari, Jónsson fengið leyfi handa okkur, Flateyringur eins og við.

Ekki var um annað að gera en að ganga heim og var ákveðið að ganga Klúku í Valþjófsdal og fá flutning yfir fjörð. Við vorum þrír félagarnir sem lögðum af stað frá Núpi, auk mín Árni Ragnarsson og Finnur Torfi Hjörleifsson. Þegar komið var að Gerðhömrum stóð þar á veginum Gummi Ben, bóndi, sem segir "Þið eigið ekki að fara lengra" -okkur er brugðið, höldum að hætt hafi verið við að leyfa okkur að fara heim--en Gummi heldur áfram. "Þið eigið að bíða eftir Arngrími hann er lagður af stað. Svo kemur Arngrímur til að leiða okkur rétta leið yfir Klúku, skollin á blindþoka þar efra
Við paufumst fram Gerðhamradal og upp í heiðina. Þar finnur Arngrímur vörðu í þokunni , gengur umhverfis hana og hugar vandlega að öllu en tekur síðan stefnuna á Klúku.Við sjáum ekki út úr augum en treystum leiðtoganum.Hann rammar á réttan stað til að fara niður og þar kveður hann okkur.

Á Kirkjubóli er tekið vel á móti okkur og eftir að hafa fengið hressingu er gengið til sjávar. Þar er árabátur sem við fengum lánaðan hjá Kirkjubólsbændum og róum yfir fjörð. Það verða fagnaðarfundir þegar við hittum foreldra og góða vini á Flateyri og við notum tímann eins vel og kostur er á til að njóta samverunnar. Maður var svo sem ekkert áfjáður í að fara svona strax til baka. Við fengum að vera í samkomuhúsinu okkur til gamans. Sara spilaði á píanóið og eitthvað greip ég í það líka og svo var sungið "Ólafur reið með björgum fram" í ákafa--minnu þess að Láfi Hall og aðrir gamlir sjóvíkingar töldu það vísastan veg til að magna óveður.

Allt kom fyrir ekki og daginn eftir var að vísu strekkingur en taldist fjarðarfært.

Við kviðum landtökunni í Valþjófsdal, mikilvægt að blotna ekki því Klúka var eftir og löng ganga að Núpi. Þeir hafa vitað þetta í Dalnum. Þegar við komum í Dalssjó eru þeir mættir í fjöruna Sörli, Björgmundur og Gunnar á Þorfinnsstöðum. Er ekki að orðlengja að þeir taka á móti bátnum og við komumst í land þurrum fótum.

Gangan upp Dalsdalinn og upp á Klúku var létt, með allhvassan vind í bakið. Bjart yfir og engin vandkvæði að rata rétta leið.

Ekki gerðist neitt sögulegt í þessari för en hún er samt eftirminnileg og eftir á að hyggja farin með lítilli fyrirhyggju.
Þegar við göngum í hlað á Núpi er komið myrkur. það er ljós í gluggum kennslustofanna-það er lestími. Við gefum okkur ekki um það en göngum í eldhús til ráðskonunnar, hennar Hjördísar frá Sólvöllum, og þiggjum ríkulegar veitingar fyrir svefninn.

Daginn eftir er venjulegur skóladagur og úti ævintýri.

 

Af Facebooksíðu Emils Ragnars Hjartarsonar,  f.v. skólastjóra á Flateyri,  á páskadegi - 5. apríl 2015. 

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31