A A A
  • 1937 - Ólafur Veturliđi Ţórđarson
  • 2010 - Mikael Rafn Jónsson
20.05.2016 - 06:37 | Vestfirska forlagiđ,Morgunblađiđ

Guđmunda Ţóranna Pálsdóttir - Fćdd 30. júlí 1927 - Dáin 11. maí 2016 - Minning

Guđmunda Ţóranna Pálsdóttir.
Guđmunda Ţóranna Pálsdóttir.
Guðmunda Þóranna Pálsdóttir fæddist á Ísafirði 30. júlí 1927. Hún lést á Landspítalanum 11. maí 2016.

Hún var dóttir hjónanna Páls Jónssonar, f. 12. desember 1904, d. 26. nóvember 1943, skipstjóra frá Hnífsdal, og Jóhönnu Daðeyjar Gísladóttur, f. 17. janúar 1908, d. 2. júlí 1981, frá Ísafirði. Systkini hennar voru: Sigurður Pálsson, f. 14. september 1930, d. 14. mars 2008, Páll Hreinn Pálsson, f. 3. júní 1932, d. 16. febrúar 2015, Þórdís Pálsdóttir, f. 21. júní 1933, d. 22. nóvember 1991.

Guðmunda giftist 3. júní 1950 Agli Halldórssyni, skipstjóra og útgerðarmanni frá Þingeyri, f. 5. nóvember 1926, d. 11. ágúst 1977.

Börn þeirra eru:
1) Páll, f. 7. september 1950. Kona Páls var Auður Guðmundsdóttir, f. 28. september 1947, d. 19. júlí 2006. Synir þeirra eru Egill, f. 26. ágúst 1977, Guðmundur Þór, f. 31. ágúst 1978, og Björgvin Már, f. 8. maí 1983. Sambýliskona Páls er Anna Sigurjónsdóttir, f. 10. febrúar 1954. 2) Halldór, f. 15. mars 1953. Kona Halldórs er Guðrún Sigríður Bjarnadóttir, f. 10. október 1957. Börn þeirra eru Sólveig Eirný, f. 18. apríl 1979, Egill, f. 7. ágúst 1982, Bjarney, f. 29. apríl 1985, og Vigdís Pála, f. 7. febrúar 1995. 3) Stefán, f. 18. febrúar 1955. Kona Stefáns er Hugrún Árnadóttir, f. 14. júlí 1955. Börn þeirra eru Hrafnhildur, f. 28. júlí 1975, Björgvin, f. 20. desember, 1994, Sif, f. 20. desember 1994, og Stefnir, f. 20. desember 1994. 4) Þórhildur Guðrún, f. 11. janúar 1960, maki Jóhann Helgason, f. 8. október 1951. Börn þeirra eru Jökull, f. 27. nóvember 1992, og Anna Sigríður, f. 7. febrúar 1996. 5) Svanhildur, f. 16. nóvember 1966, maki Jón Sólmundsson, f. 25. október 1966. Börn þeirra eru Sigþór Jens, f. 23. september 1990, Guðmunda Þóra, f. 17. júlí 1992, Guðrún Stefanía, f. 13. apríl 1995, og Sólmundur Örn, f. 11. júlí 2001.

Guðmunda ólst upp á Ísafirði hjá móðurforeldrum sínum til sex ára aldurs er hún flutti til foreldra sinna á Þingeyri við Dýrafjörð. Hún gekk í Barnaskólann á Þingeyri og nam síðan við Kvennaskólann á Blönduósi veturinn 1946-1947. Guðmunda og Egill bjuggu sinn búskap á Dyrhól á Þingeyri, þar sem Egill stundaði sjómennsku og var með útgerð. Guðmunda sá um heimilishald og uppeldi fimm barna. Einnig annaðist hún tengdaforeldra sína og aldraða vinkonu þeirra á heimilinu þar til þau féllu frá. Skömmu eftir lát Egils, eða árið 1980, flutti Guðmunda til Hafnarfjarðar og bjó lengst af á Hjallabraut 7. Hún vann í álverinu í Straumsvík í yfir áratug. Síðustu árin dvaldi hún á Hrafnistu í Hafnarfirði.

Guðmunda verður jarðsungin frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 20. maí 2016, kl. 13. Minningarstund verður í Þingeyrarkirkju 21. maí klukkan 15 og greftrun að henni lokinni.

 

________________________________________

 

Við systkinin kveðjum nú Guðmundu Pálsdóttur, eða Mundu systur, eins og pabbi kallaði hana alltaf. Þau systkinin voru alla tíð samrýnd og fjölskylduböndin sterk. Munda tók ætíð vel á móti okkur þegar við heimsóttum hana á Þingeyri og þá var kátt í koti. Eftir að hún flutti í Hafnarfjörð urðu samskiptin enn meiri og það var alltaf gott að koma til hennar. Hún var elst systkina pabba og mundi margt frá gamalli tíð. Það var gott að geta leitað til hennar með spurningar og alltaf vissi hún svörin. Hún átti líka fjölmargar myndir sem hún geymdi vel og leyfði okkur að skoða þegar við vildum. Það var ómetanlegt að eiga hana að þegar við vorum að safna saman efni um foreldra okkar og forfeður og verðum við henni ævinlega þakklát fyrir það.

Þegar við vorum lítil hlökkuðum við allt árið til að fá jólapakkana frá fjölskyldunni á Dýrhóli. Við gátum treyst því að í þeim væru skemmtilegar barna- og unglingabækur. Okkur fannst sérlega gaman að fá bækurnar um Hildu á Hóli og auðvitað fannst okkur að þessi Hóll hlyti að vera Dýrhóll.

Munda var falleg kona og glæsileg. Hún var góður dansari og það var aldrei leiðinlegt að koma á böllin á Hrafnistu og sjá þau dansa saman, systkinin. Enda sagði hún mér stuttu fyrir andlátið að ung hefðu þau iðulega fengið að fara með foreldrum sínum á þorrablótin og hjónaböllin sem haldin voru á Þingeyri. Þar hefði pabbi þeirra kennt þeim að dansa. Það leyndi sér ekki að þau systkinin kunnu sporin og nutu þess að svífa um gólfið.

Öllum er okkur úthlutaður tími hér á jörðu. Nú er Munda horfin til Egils síns, sem hún missti allt of snemma. Og nú hefur hún sameinast systkinum sínum. Þar eru fagnaðarfundir.

Við hin, sem eftir sitjum, minnumst góðrar konu sem við vorum svo heppin að fá að vera samferða í þessu lífi.

Við sendum börnum hennar og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Margrét Pálsdóttir

og systkini.

 

Morgunblaðið föstudagurinn 20. maí 2016.

« Febrúar »
S M Ţ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28