A A A
  • 1950 - Margrét Guðjónsdóttir
  • 1955 - Angantýr Valur Jónasson
23.09.2016 - 08:17 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið

Guðmunda Kr. Jónsdóttir - Fædd 29. október 1922 - Dáin 8. september 2016 - Minning

Guðmunda Kr. Jónsdóttir (1922 - 2016).
Guðmunda Kr. Jónsdóttir (1922 - 2016).
« 1 af 2 »
Guðmunda Kristjana Jónsdóttir fæddist á Saurum í Keldudal í Dýrafirði 29. október 1922. Hún lést 8. september 2016.

Foreldrar hennar voru hjónin Halldóra Gestsdóttir, húsfreyja á Saurum, f. 19. mars 1884, d. 6. júlí 1972, og Magnús Jón Samúelsson bóndi þar, f. 13. september 1869, d. 26. júní 1931. Systkini Guðmundu voru: Ingibjörg Andrea Jónsdóttir, húsfreyja í Fremri-Breiðadal Ön., f. 23. janúar 1918, d. 24. júní 1993, og Gestur Jónsson, bóndi í Skaftholti Gnúp., f. 7. október 1924, d. 27. janúar 2015. Uppeldissystkini Guðmundu voru Guðmundur J. Kristjánsson meinatæknir, f. 11. júní 1911, d. 23. júlí 2000, og Svanhildur Á. Sigurjónsdóttir þjónn, f. 5. maí 1927.

Dóttir Guðmundu fyrir giftingu: 1) Svala Halldóra Steingrímsdóttir, fv. starfsmaður Selfossbæjar, f. 1942, fv. maki 1, Hjörtur Sæmundsson lögreglumaður, f. 1937, fv. maki 2, Skúli Hróbjartsson vélamaður, f. 1946. Svala á fjögur börn. Faðir hennar var Steingrímur Egill Þorkelsson sjómaður, f. 27. september 1911, d. 18. apríl 1980.

Hinn 25. október 1947 giftist Guðmunda Ívari Kr. Jasonarsyni bónda og hreppstjóra á Vorsabæjarhóli, f. 5. júlí 1910, d. 30. júlí 1963.
Börn þeirra eru:
2) Helga Ívarsdóttir fv. skrifstofumaður OR, f. 1946, maki Guðjón Hákonarson trésmiður, f. 1941, látinn, þau eiga fjögur börn.
3) Markús Kristinn Ívarsson bóndi, f. 1947, fv. maki Helga Bjarnadóttir sjúkraliði, f. 1955, þau eiga tvö börn.
4) Jón Magnús Ívarsson rithöfundur, f. 1948, fv. maki 1, Jóna Baldursdóttir sjúkraliði, f. 1953, fv. maki 2, Katrín H. Jónsdóttir kennari, f. 1956. Jón á tvö börn.
5) Jason Ívarsson kennari, f. 1953, maki Hulda Sváfnisdóttir íþróttakennari, f. 1954, þau eiga fimm börn.
6) Drengur Ívarsson, f.d. 7.11. 1955.
7) Margrét Ólöf Ívarsdóttir kennari, f. 1959, fv. maki Már Jónsson vélfræðingur, f. 1953, þau eiga fimm börn.
8) Áslaug Ívarsdóttir kennari, f. 1959, maki Pálmi Vilhjálmsson mjólkurverkfræðingur, f. 1959, þau eiga fjögur börn.
9) Ingibjörg Ívarsdóttir sjúkraþjálfari, f. 1961.

Ömmubörn Guðmundu eru 26, langömmubörnin 28 og langalangömmubörnin tvö.

Guðmunda missti föður sinn átta ára gömul og fór að vinna fyrir sér upp úr fermingu. Þá fór hún sem vinnukona að Úlfsstöðum í Skagafirði í tvö ár og þaðan til Reykjavíkur í stríðsbyrjun. Þar var hún í vistum en fór svo að vinna á saumastofu Andrésar klæðskera og lærði herrafatasaum.

Árið 1943 fór hún sem vinnukona að Baugsstöðum með Svölu dóttur sína á fyrsta ári. Þá kynntist hún Ívari og þau fóru að búa á Vorsabæjarhóli árið 1946. Ívar lést árið 1963 en Guðmunda bjó áfram á jörðinni með börnum sínum um fimm ára skeið.

Hinn 1. júní 1968 giftist hún Ólafi Sigurðssyni frá Syðri-Gengishólum, f. 27. janúar 1919, d. 17. júlí 2010, þau skildu. Þau bjuggu á Vorsabæjarhóli til 1977 en fluttust þá á Selfoss. Guðmunda fluttist að Grænumörk 5 Selfossi árið 2005 og þar var heimili hennar eftir það.

Útför Guðmundu fer fram frá Gaulverjabæjarkirkju í dag, 23. september 2016, og hefst athöfnin klukkan 14.

______________________________________________________________________________

 

Minningarorð Jóns M. Ívarssonar

Nú er hún mamma mín farin frá okkur. Hún hefur verið til staðar alla mína ævi en allt tekur víst enda að lokum. Lífið fór ekki alltaf mjúkum höndum um hana móður mína, sem fæddist í torfbæ í afskekktum dal undir vestfirskum fjöllum. Hún missti föður sinn barn að aldri og varð sem unglingur að fara í annan landshluta til að vinna fyrir sér hörðum höndum.

Aðeins tvítug að aldri fór hún austur að Baugsstöðum með Svölu systur á fyrsta ári til að leita að nýrri framtíð fyrir þær mæðgur. Og hún fann hana þegar hún kynntist pabba og þau fóru að búa á Vorsabæjarhóli.

Ekki var aðkoman glæsileg. Bærinn búinn að vera í eyði í áratug, húsin léleg, ekkert rafmagn, ekkert nothæft vatn. „En maður var svo bjartsýnn og var ekki að setja neitt fyrir sig,“ sagði mamma. Hún eignaðist okkur átta systkinin og við hin eldri ólumst upp í litla gamla bænum þar sem vindar blésu inn um glugga og dyr í vestanátt.

En börnin voru hraust, sagði mamma, og þakkaði það hreina loftinu.

Mikið var nú gott að geta leitað til mömmu þegar maður var lítill og hafði dottið og meitt sig og hún tók mann í fangið og reri með mann og söng fallegar vísur. Þá bötnuðu öll heimsins mein á augabragði.

Mömmu fannst gaman að syngja, hún söng oft við verkin og hafði afar fallega söngrödd. Svo þýða og hljómmikla að hún bar uppi kirkjukórinn þegar hún söng við messu í Gaulverjabæ. Hún kunni öll lög og enn heyri ég hana fyrir mér að syngja Rósina, sem var einkennislag hennar. Það var engu líkt.

Pabbi varð hreppstjóri og oddviti og sá um skattaskýrslur fyrir marga í sveitinni. Það var mikill gestagangur og alltaf fannst mér mamma vera að baka og bera á borð fyrir gesti og fáir voru dagarnir á vetrinum þegar enginn kom. Þetta bættist á hana auk þess að sjá um matinn, sjá um okkur börnin, sauma á okkur fötin, prjóna sokka og peysur á allan hópinn og þegar hún komst út með hrífuna sína á sumrin fór nú heyvinnan aldeilis að ganga. Hún var bæði fljótvirk og velvirk. Prjónaði lopapeysur í hundraðatali og seldi en andvirðið ýmist gaf hún eða lánaði, hún var gjafmild kona. Hvernig hún fór að þessu öllu skildi ég eiginlega aldrei en hún var ekkert mikið að velta því fyrir sér. Hún gerði þetta bara.

Saumaklúbburinn í Vorsabæjarhverfinu og nágrenni var líka mikil upplyfting fyrir konurnar á bæjunum. Þær voru svo miklar vinkonur, hittust þarna hálfsmánaðarlega eftir áramót og saumuðu í og svo var alltaf veisla þegar karlarnir komu á jeppunum sínum að sækja þær. Þetta gaf mömmu mikið, hún var svo mikil félagsvera. Ekki hafði hún síður gaman af að spila vist þegar árin færðust yfir og kunni betur við að vinna en tapa. Árin í Grænumörkinni voru henni góð og þar átti hún mörgum vinum að mæta.

Mamma var sérlega umhyggjusöm og alltaf meira með hugann við velferð okkar barnanna en sína eigin. Kjarnakona sem stóð keik til hinstu stundar. Ótrúlega minnisgóð og vel með á nótunum andlega en líkamsorkan var á þrotum og það var gott að hún fékk að fara þegar svo var komið. Vertu sæl mamma mín og þakka þér fyrir allt.

Jón M. Ívarsson.

 

Morgunblaðið föstudagurinn 23. september 2016.



« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30