A A A
  • 1964 - Hermann Drengsson
10.08.2009 - 12:04 | bb.is

Fjölmenni í aldarafmæli Skrúðs

Garðurinn skartaði sínu fegursta.
Garðurinn skartaði sínu fegursta.
Fjölmenni var viðstatt aldarafmæli skrúðgarðsins Skrúðs í Dýrafirði á laugardag. „Á fjórða hundrað manns tók þátt í hátíðahöldunum sem fóru fram í stilltu og kyrru veðri. Athöfnin tókst þokkalega og ég held að fólk hafi notið veðursins sem og garðsins sjálfs sem hefur verið snyrtur og lagaður í sumar og skartar núna sínu fegursta", segir Brynjólfur Jónsson, formaður stjórnar Framkvæmdasjóðs Skrúðs. Meðal gesta var Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra. Boðið var upp á tónlistaratriði og Elfar Logi Hannesson birtist í gervi séra Sigtryggs Guðlaugssonar stofnanda garðsins og flutti leikþátt. Að athöfn lokinni var boðið upp á fiskisúpu og kvenfélagskonur frá Þingeyri bökuðu vöfflur í gríð og erg og höfðu varla undan.

Í garðinum eru kjálkabein af einni stærstu steypireyði sem hefur verið fönguð við Ísland, en það var rétt fyrir aldamótin 1900. Unnið verður að því að koma beinunum til varanlegrar varðveislu og verða yngri bein sett upp í staðinn. „Beinin eru orðin gömul og í rauninni tímaspursmál hvenær þau muni brotna undan veðri og vindum. Það er því stefnt að því að þau verði tekin niður í haust svo hægt sé að varðveita þau", segir Brynjólfur. Einnig verður haldið áfram framkvæmdum í garðinum á haustdögum en bæta á aðstöðu fyrir ferðamenn og umsjónarmenn garðsins. „Það er margt skemmtilegt í gangi og við höfum fengið góðan stuðning við verkið. Margir vilja leggja málefninu lið, bæði ráðamenn og einstaklingar. Fyrirtæki hafa styrkt okkur og margir hafa verið í sjálfboðavinnu í gegnum tíðina", segir Brynjólfur.

Sérstaða Skrúðs umfram aðra garða er ekki síst tengd tilurð og tilgangi hans en í upphafi var hann hugsaður sem kennslugarður fyrir nemendur á Núpi. Séra Sigtryggur tíundaði mikilvægi ræktunar garðjurta til fæðubótar og heilbrigðis og má segja að sú hugsun hafi á þeim tíma verið langt á undan samtímanum. „Garðurinn er stórmerkilegur í garðyrkjusögu landsins. Það er skemmtilegt að sjá hvað menn gerðu fyrir hundrað árum í ræktun. Núna er verið að huga að gildum lífrænar ræktunar aftur og því gaman að vita af því að menn voru farnir að hugsa um þetta fyrir hundrað árum síðan", segir Brynjólfur.

Brynjólfur segir Skrúð einnig vera mikilvægan fyrir ferðamennsku á svæðinu. „Það er einn fastur liður hjá ferðamönnum að kíkja við í garðinn þegar þeir koma vestur. Að því leiti er hann mjög mikilvægur því hann er svo ólíkur öðru sem er í boði á Vestfjörðum."
« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30