Finnur Torfi Hjörleifsson, skáld og fyrrv. hérðasdómari 80 ára - Dómstjóri og róttækur náttúruverndarsinni
Finnur Torfi var kennari við Héraðsskólann á Núpi í Dýrafirði, stundakennari við Víghólaskóla í Kópavogi, við Héraðsskólann í Skógum undir Eyjafjöllum, við Hagaskóla í Reykjavík, var kennari við Menntaskólann á Ísafirði og stundakennari við Gagnfræðaskólann á Ísafirði, við Gagnfræðaskólann í Garðabæ, stundaði sjómennsku 1974-76, var útbreiðslustjóri Þjóðviljans, blaðamaður við Sjómannablaðið Víking 1978-80, var settur fulltrúi hjá bæjarfógetanum í Hafnarfirði, Garðabæ og á Seltjarnarnesi og sýslumanninum í Kjósarsýslu 1986-90, settur héraðsdómari við sama embætti 1990, skipaður héraðsdómari þar 1991, héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjaness 1992 og síðan dómstjóri í Borgarnesi þar til hann lét af störfum fyrir aldurssakir 2003.
Finnur Torfi sinnti ýmsum störfum fyrir Æskulýðsfylkinguna í Reykjavík og síðar fyrir Alþýðubandalagið. Þá var hann landvörður á sumrin í Skaftafelli, á Þingvöllum og að Fjallabaki 1977, 1978, 1982, og 1985.
Finnur Torfi sat í Stúdentaráði HÍ 1958-59, var formaður Æskulýðsfylkingarinnar 1960-61, varaforseti Sambands ungra sósíalista 1962-63, formaður Alþýðubandalagins í Kópavogi 1968-70, sat í námsbókanefnd 1968-70, formaður Vestfirskra náttúruverndarsamtaka 1971-72, sat í stjórn Náttúruverndarfélags Suðurlands 1973-74, formaður stjórnar Landvarðafélags Íslands 1978-79, sat í stjórn Skotveiðifélags Íslands 1979-81 og formaður þess 1980-81, sat í skóla- og náttúruverndarnefndum á Ísafirði og í Kópavogi og sat í ráðum og nefndum á vegum Sósíalistaflokksins og Alþýðubandalagsins.
Finnur Torfi hefur samið kennslubækur og kennsluleiðbeiningar í íslensku, einkum um ljóðakennslu, sendi frá sér þrjár ljóðabækurnar og endurminningarnar Vestan fóru, útg. 2016, var ritstjóri Kaldbaks, rit Vestfirskra náttúruverndarsamtaka, og hefur skrifað fjölda greina í blöð og tímarit um stjórnmál, skólamál, náttúruvernd og lögfræði.
Fjölskylda
Fyrri kona Finns Torfa er Hulda Árnadóttir, f. 3.10. 1934, fyrrv. handavinnukennari. Þau skildu 1963.
Synir Finns og Huldu eru Árni, f. 28.3. 1958, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, en kona hans er Hrafnhildur Arnkelsdóttir, tölfræðingur og skrifstofustjóri á Hagstofu Íslands, og eiga þau tvær dætur, og Magnús Einar, f. 21.7. 1959, d. 13.2. 2005, tæknifræðingur hjá Hita- og vatnsveitu Akureyrar, var kvæntur Jóhönnu Erlu Birgisdóttur guðfræðingi og eru börn þeirra þrjú.
Seinni kona Finns Torfa var Helga Kristín Einarsdóttir, f. 19.9. 1941, d. 31.10. 2014, bókasafnsfræðingur. Þau skildu 1988.
Börn Finns Torfa og Helgu Kristínar eru Einar Torfi, f. 13.8. 1965, leiðsögumaður, en kona hans er Ingibjörg Guðjónsdóttir, leiðsögumaður og þjóðfræðingur, og eiga þau tvö börn; Hjörleifur, f. 28.3. 1969, heimspekingur hjá Íslandsstofu og á hann tvo syni, og Glóey, f. 29.10. 1970, lögfræðingur hjá Isavia, gift Scott Riddel, umhverfisfræðingi og doktorsnema í fornleifafræði.
Systkini Finns Torfa: Hjördís, f. 25.2. 1926, d. 30.8, 2012, skólastjóri við Húsmæðraskólann Ósk á Ísafirði og að Holti í Önundarfirði og varaþm.; Ingibjörg Sigríður, f. 20.8. 1928, d. 5.4. 2010, húsfreyja, ljóðskáld og lagahöfundur á Ísafirði; Ásdís, f. 21.4. 1939, húsfr. í Kópavogi; Kristjana, f. 10.2. 1932, húsfr. í Noregi; Hringur, f. 30.6. 1933, d. 30.1. 2007, skipstjóri og framkvæmdastjóri í Grundarfirði, og Örn, f. 11.9. 1939, skipstjóri á Snæfellsnesi.
Foreldrar Finns Torfa voru Hjörleifur Guðmundsson, f. 1.10. 1896, d. 12.11. 1984, verkstjóri og pípulagningamaður á Sólvöllum á Flateyri, síðast í Kópavogi, og k.h., Gunnjóna Sigrún Jónsdóttir, f. 7.9. 1899, d. 9.9. 1974, húsfreyja á Sólvöllum.
Morgunblaðið 7. nóvember 2016.