A A A
  • 1949 - Guðberg Kristján Gunnarsson
  • 1962 - Unnur Cornette Bjarnadóttir
25.04.2017 - 08:13 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið,Björn Ingi Bjarnason

Erling Snævar Tómasson - Fæddur 10. júní 1933 - Dáinn 11. apríl 2017 - Minning

Erling Snævar Tómasson (1933 - 2017).
Erling Snævar Tómasson (1933 - 2017).
« 1 af 2 »
Erling Snævar Tómasson fæddist 10. júní 1933 í Tungu í Önundarfirði. Hann lést á heimili sínu 11. apríl 2017.

Foreldrar hans voru Ólöf Björnsdóttir, f. 1911, d. 1976, og Tómas Nissen, f. 1903, d. 1962. Stjúpfaðir Bóas Jónatansson, f. 1905, d. 1977.

Systkini Erlings eru: Guðrún, f. 1939, Sigurgeir, f. 1948, Lóa Björk, f. 1951, d. 1974.

Erling kvæntist Ingibjörgu Magnúsdóttur frá Ketilsstöðum í Hvammssveit, f. 9. mars 1932, d. 25. júlí 2009.
Börn þeirra eru:

1) Lára, f. 1954, maki Þorsteinn Á. Henrysson, f. 1953, d. 2015, þau eiga einn son, Henry Á. Þorsteinsson, maki Veronica Thorsteinsson, f. 1978, þau eiga fjögur börn.

2) Ólöf, f. 1956, maki Þorsteinn Jóhannesson. Börn hennar: a) Ingibjörg, f. 1985, maki Guðmundur Vignir Sigurðsson, f. 1985, þau eiga tvö börn. Faðir Ingibjargar er Sigurður Harðarson, f. 1957. b) Steinunn Ólafardóttir, f. 1987. Faðir Steinunnar er Kristján Karlsson, f. 1960.

3) Björn, f. 1957, maki Bergþóra Valsdóttir, f. 1958, börn þeirra eru: a) Valur, f. 1979, maki Björg Ýr Jóhannsdóttir, f. 1976, þau eiga þrjár dætur. b) Inga Lára, f. 1985, maki Kári Hreinsson, f. 1986. c) Kristján Þór, f. 1991. d) Lóa Björk, f. 1993.

4) Magnús Ingi, f. 1965, maki Sunna Ólafsdóttir, f. 1965, þau skildu. Synir þeirra eru: a) Magnús Orri, f. 1988, b) Emil Már, f. 1992, c) Daníel Máni, f. 1997. Fyrir átti Magnús dótturina Ástríði, f. 1983, maki Sölvi Signhildar-Úlfsson, dóttir þeirra er Hjördís, f. 2016. Móðir Ástríðar er Hjördís Gunnarsdóttir, f. 1965.

5) Már, maki Halla Gunnarsdóttir, f. 1970, börn þeirra eru: a) Guðbjörg Lára, f. 1994, b) Erling Hugi, f. 1997, c) Logi Heiðar, f. 2003, d) Sölvi Geir, f. 2005.

6) Heiða, maki Rúnar Sigtryggsson, f. 1972, börn þeirra eru: a) Sigtryggur Daði, f. 1996, b) Andri Már, f. 2002, c) Eva Ingibjörg, f. 2006. Auk þess á Rúnar soninn Aron Rúnarsson Heiðdal, f. 1995.

Erling ólst upp hjá móður sinni og stjúpföður í Tungu í Önundarfirði fram til 1942 en þá flutti fjölskyldan til Flateyrar þar sem Erling hóf sína skólagöngu. Erling stundaði því næst nám við Héraðsskólann á Núpi. Árin 1948-1952 stundar Erling nám við Menntaskólann á Laugarvatni en útskrifast frá MR 1952. Kennaraprófi er lokið 1954 og BA-prófi í sögu og landafræði frá HÍ 1957.

Erling hóf störf við Langholtsskóla 1955 og starfaði þar til 1996, sem kennari 1955-1968, yfirkennari 1968-1973, skólastjóri 1973-1996. Erling gegndi einnig stöðu aðstoðarskólastjóra Vinnuskóla Reykjavíkur 1967-1974 og skólastjóra 1974-1980.

Erling unni landinu og gjörþekkti. Hann var óþreytandi í því að miðla fróðleik og þekkingu til sinna nánustu og þar naut kennarinn sín. Erling var alla tíð mikill útivistarmaður og lagði stund á göngu- og skíðaferðir.

Útför Erlings fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 25. apríl 2017, og hefst athöfnin kl. 13.
_____________________________________________________________________________

 

Minningarorð Bergþóru Valsdóttur

 

Nú þegar við kveðjum yndislegan tengdaföður minn, Erling Snævar Tómasson, er mér efst í huga þakklæti fyrir allt sem hann var okkur. Við Bjössi vorum vart af barnsaldri þegar kynni tókust með okkur. Erling hafði ekki um það mörg orð en tók á móti mér með sínu ljúfa brosi. Hann var sennilega frekar ánægður með að hluti skólagöngu minnar hafði verið í Langholtsskóla, það var alltaf svolítill plús í hans huga. Hann var skólamaður af lífi og sál og var gaman að ræða skólamálin við hann.

Tengdapabbi var afskaplega bóngóður, reiðubúinn að aðstoða, líka þegar það þýddi meira vesen fyrir hann sjálfan. Þegar börnin okkar fæddust var hann stoltur og glaður afi frá fyrstu stundu. Hann var mikill útivistarmaður og unni íslenskri náttúru heitt. Hann fór með barnabörnin í útivistar- og skíðaferðir og átti stóran þátt í að kynna þeim íslenska náttúru. Hann var ótæmandi brunnur fróðleiks um náttúru og mannlíf og dáðust þau að því hversu fróður hann var. Þessar ferðir munu lifa í huga og hjarta barnabarnanna um ókomna tíð.

Tengdapabba verður ekki minnst án þess að minnast á Ingu, tengdamóður mína. Samband þeirra var einstakt og aðdáunarvert hvernig þau tókust á við þau verkefni sem lífið færði þeim. Þegar tengdamamma greindist með parkinson-sjúkdóminn á besta aldri var engin uppgjöf í boði heldur lifað til fullnustu eins lengi og stætt var, og aðeins lengur. Þau ferðuðust saman innanlands og utan þegar fáum datt í hug að það væri mögulegt. Þau bjuggu saman í sinni íbúð löngu eftir að flestum þótti nóg komið. En svona var tengdapabbi, ótrúlega seigur, umhyggjusamur og ákveðinn í því að þau myndu ganga sinn æviveg saman, til enda. Að öðrum ólöstuðum voru Már, Halla og þeirra börn tengdapabba og tengdamömmu ómetanlegur stuðningur og fyrir það er ég óendanlega þakklát.

Ég átti því láni að fagna að fara nokkrar ferðir um Vestfirðina með tengdapabba. Hann var fæddur og uppalinn í Önundarfirði og naut þess að skreppa vestur á sumrin. Ég er ættuð úr Dýrafirði og sló ekki hendinni á móti tækifæri til að slást í för með honum. Hann var hafsjór af fróðleik um firðina, menn og málefni. Tengdapabbi sló oft á létta strengi og sagði að það besta við Dýrafjörð væri að hann væri næsti fjörður við Önundarfjörð. Eitt sinn þegar við vorum stödd í Dýrafirði sagði hann: „Ég held að Dýrafjörður sé bara fallegasti fjörður á Íslandi ... á eftir Önundarfirði.“

Hann gekk á fjöll alveg fram á síðustu ár. Í ferðum okkar vestur keyrði ég hann stundum þangað sem hann lagði upp í sína fjallgöngu og sótti hann svo á áfangastað, gjarnan í næsta firði, á ákveðnum tíma. Alltaf stóðust tímasetningar hjá tengdapabba sem kom brosandi og ánægður til baka.

Nú er tengdapabbi lagður upp í sína síðustu ferð. Ég kveð hann með virðingu og þakklæti fyrir allt sem hann var mér og fjölskyldunni. Við munum leggja okkur fram um að halda merki hans á lofti og halda í þær hefðir sem hann passaði svo vel upp á. Hans verður sárt saknað.

Bergþóra Valsdóttir.

Morgunblaðið 25. apríl 2017


« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31