A A A
  • 1932 - Skúli Sigurðsson
  • 1982 - Sigríður Ýr Svanbergsdóttir
  • 2003 - Bríet Vagna Birgisdóttir
10.08.2016 - 20:41 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið,Elfar Logi Hannesson

"Einstök og einleikin hátíð" segir tengdasonur Dýrafjarðar

Elfar Logi  Hannesson - tengdasonur Dýrafjarðar.
Elfar Logi Hannesson - tengdasonur Dýrafjarðar.

• Leiklistarhátíðin Act alone fer fram á Suðureyri dagana 11.-13. ágúst 2016

„Þetta er eins og að kasta sér fyrir björg og þú finnur það eftir ekki mjög margar mínútur hvort þetta heldur eða ekki – það er engin miskunn í þessu,“ segir Elfar Logi Hannesson, leikari, um einleikinn sem listform en það er í hávegum haft á leiklistarhátíðinni Act alone sem haldin er í sjávarþorpinu Suðureyri dagana 11.-13. ágúst. Sextán atriði eru í boði á hátíðinni í ár og eru þau ýmist í leiklist, dansi, tónlist, ritlist, gjörningum eða myndlist.

Ókeypis er inn á hátíðina en það hefur verið frá því hún var fyrst sett á laggirnar árið 2004. „Það er mikilvægt að allir fái tækifæri til að fara ókeypis í leikhús og það geta þeir gert á Suðureyri,“ segir Elfar Logi en fólk hafi í gegnum árin verið áhugasamt um að kynna sér þetta sérstaka leikhúsform. Metfjöldi sótti hátíðina í fyrra þegar um 2.800 gestir komu og árið þar á undan voru gestirnir um 2.300 talsins.

 

Margt smátt verður eitt stórt

„Þetta form er ótrúlega fjölbreytt og æðislegt að fá svona þverskurðinn af þessu öllu á einni helgi því það er í raun og veru fjölbreytt og mun áhugaverðara en margir halda,“ segir Elfar Logi en hann er upphafsmaður hátíðarinnar. Einleikjaformið fangaði hann fyrir margt löngu þegar hann hóf að setja upp einleiki fyrir vestan.

Það er svo margt smátt sem gerir eitt stórt í tilfelli hátíðarinnar því hún hefur bæði vaxið og þróast eftir því sem árin færast yfir. „Hún byrjaði afskaplega lítil og nett – það voru þrjár sýningar og einn fyrirlestur um einleikjaformið,“ segir hann en tilraunin hafi heppnast svo vel að ekki hafi verið aftur snúið. „Það var engin leið að hætta“ – eins og Valgeir söng hér um árið,“ segir Elfar Logi léttur í bragði.

Áherslan hefur alltaf verið lögð á að tjalda ekki til einnar nætur heldur bjóða upp á vandaða dagskrá fyrir fólk á öllum aldri og börnin líka.

 

Sígandi lukka hátíðarinnar

Fjöldi gesta eykst með hverju árinu en eftir að hátíðin fluttist yfir á Suðureyri árið 2012 þá halda henni engin bönd. „Þegar við fórum þarna yfir þá bara gerðist eitthvað – einhver galdur sem maður getur ekki útskýrt. Hátíðin stækkaði og frá því við komum hefur verið fullt á hverja einustu sýningu og fólk stendur og liggur þegar stólarnir eru búnir,“ segir hann glaður með gang mála. Yfir hundrað manns hafa troðið upp á hátíðinni og aldrei neinn sagt nei við því að koma þar fram. „Það er stór þáttur í því að hátíðin hefur verið einstök.“

Góðir bakhjarlar leggja einnig sitt á vogarskálarnar svo hátíðin sé möguleg á hverju ári. Fischerman-ferðaþjónustufyrirtækið er einn helsti bakhjarl hátíðarinnar og er staðsettur á Suðureyri og rekur þar gistiheimili, veitingastað og fleira. Þá hlýtur hátíðin einnig styrki frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða og Ísafjarðarbæjar og fleiri fyrirtækjum.

Aðspurður hvernig bæjarbúar taki hátíðinni segir hann viðbrögðin engu lík. „Súgfirðingar eru afskaplega gestrisið fólk og hefur tekið hátíðinni opnum örmum og íbúar bæði mæta vel og lána allt sem til þarf ef eitthvað vantar – það er aldrei vandamál.“

 

Eitthvað fyrir alla aldurshópa

Elfar Logi segir það hafa komið sér á óvart hve margir mæta ár hvert til að fylgjast með einleikjum á hátíðinni. „Eins og einn gagnrýnandinn sagði eitt sinn: Alltaf fundist einleikir vera afskaplega leiðinlegir. Þannig að já, þetta kom mjög á óvart,“ segir hann hlæjandi en dagskráin í ár er ekki síður líkleg til að draga að margan manninn á Suðureyri.

Upphafstónn hátíðarinnar er þó ávallt sleginn með sama hætti eða með fiskismakki í boði Íslandssögu á Suðureyri. „Við hefjum alltaf hátíðina á því að seðja magann áður en andinn er mettaður,“ segir Elfar Logi en fyrsti einleikurinn fer fram strax að fiskiveislunni lokinni í kirkjunni. Er það leiksýning á ensku byggð á Richard III eftir Shakespeare í flutningi Emily Carding. Því næst er myndlistarsýningin Duldýrin eftir Arngrím Sigurðsson og fleiri atriði fram eftir kvöldi.

Þá kemur Gerður Kristný skáld og les upp úr bók sinni Drápu á föstudagskvöldið en því næst stígur Sesar A & Dj Kocoon á svið með rapptónleika en hann er oft nefndur „afi íslensks hipp hopps.“

Á laugardeginum er svo boðið upp á fjölskylduskemmtun kl. 14 í Þurrkveri þar sem Gunnar Helgason stígur á svið og fer í gegnum bækur sínar á óvenjulegan hátt. Hinn árlegi markaður hátíðarinnar fer svo fram í félagsheimilisportinu seinna sama dag undir heitinu „Ein stakur markaður.“

Barnaleiksýningin Kúrudagur fer svo fram í eftirmiðdaginn en því næst er farið yfir Einleikjasögu Íslands en Elfar Logi hefur unnið að ritun sögunnar síðasta áratuginn og nálgast nú lokasprettinn. Vestfirski listamaðurinn Gunnar Þórðarson tekur svo nokkur af lögum sínum sem allir þekkja kl. 21.30 í FSÚ.

Dagskránni lýkur með uppistandi Dóra Maack sem er einn Pörupilta, þar sem hann les pólitísk ástarljóð hins unga upprétta manns og opnar hjarta sitt, eins og fram kemur í lýsingu sýningarinnar.


« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30