A A A
  • 1966 - Steinar Ríkarður Jónasson
Gullfoss á Núpsbót. Teikning Bjarni Guðmundsson.
Gullfoss á Núpsbót. Teikning Bjarni Guðmundsson.
« 1 af 2 »

Núpsskóli. Litlu jólin. Jólamatur. Jólakvöldvaka undir stjórn Sigga Guðmunds. Jólaball. Marsar og hinar æfingarnar. Arngrímur kennari dansar óvenju glaður Stjóri stendur við útidyrnar niðri. Fylgist grannt með okkur í gegnum hnausþykk gleraugu sín. Alvarlegur að venju ...

Fáum koma ansastrik í hug, vessarnir hafa vikið fyrir barnslegri hlökkun til jóla. Jólaleyfi að morgni. Raunar fyrr. Von á Gullfossi, flaggskipi íslenska flotans undir stjórn Kristjáns Aðalsteinssonar frá Hrauni inn á Núpsbót í nótt. Er að koma jólaferðina frá Akureyri.

Lítið sofið, eiginlega ekkert. Dansað fram á rauðanótt. Harmoníka, kannski segulband? Ys og þys á vistum. Brátt sér til ljósa hins tignarlega skips. Þau speglast í lygnum og myrkum haffletinum undir skörðum mána yfir Helgafelli.

Sunnankrakkarnir halda niðrað Núpssjó með föggur sínar. Ætli Valdi á Núpi sé þar ekki tilbúinn með bátinn sinn að flytja þau fram í Gullfoss. ...

Við hin fáum okkur kríu. Í birtingu höldum við stútfull af tilhlökkun inn að Gemlufalli. Með Valgeiri á Hallberu þverfirðis að Þingeyri. Dreifumst þaðan. Jólakortablíða og lygn Fjörðurinn.

Mikið óskaplega var gaman að komast í jólafrí. Heim.

Líklega varð þó enginn glaðari en Stjóri, sr. Eiríkur á Núpi - að sjá á bak liðinu, að vera laus við okkur, stórt hundrað baldinna krakka fram á næsta ár.

Og ljósin á Gullfossi hurfu fyrir Hafnarnesið ....

 

Af Facebook-síðu Bjarna Guðmundssonar.

« Október »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31